Samþykkt var á fundi bæjarstjórnar Álftaness í gærkvöldi tillaga meirihluta bæjarstjórnar um að senda Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga tilkynningu um slæma fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Tillagan þarfnast tveggja umræðna í bæjarstjórn og verður síðari umræða um málið 4. nóvember n.k.
Að sögn meirihluta bæjarstjórnar hefur verið unnið að því undanfarnar vikur að greinaá stöðu fjármála hjá Sveitarfélaginu Álftanesi. Þessi vinna var unnin af bæjarstjóra, fjármálastjóra og sérfræðingi frá KPMG, ásamt fulltrúum meirihluta bæjarstjórnar.
Að lokinni þessari greiningarvinnu sé það mat þessara aðila að óska eftir aðkomu eftirlitsnefndarinnar með fjármálum sveitarfélaga, með vísan til 75. gr. sveitarstjórnarlaga. Í þeirri lagagrein segir m.a., að komist sveitarfélag í fjárþröng þannig að sveitarstjórn telur sér eigi unnt að standa í skilum skuli hún tilkynna það til eftirlitsnefndar
„Það er mat meirihluta bæjarstjórnar Álftaness að verði ekkert að gert, eða gripið til viðeigandi ráðstafana varðandi fjármál bæjarsjóðs, muni stefna í verulegan greiðsluvanda hjá sveitarfélaginu. Íbúum sveitarfélagsins mun verða gerð frekari grein fyrir stöðu málsins á opnum fundi um miðjan nóvember. Ákvörðun þessi er þungbær fyrir meirihluta bæjarstjórnar en er tekin að vandlega athuguðu máli og er gerð með hagsmuni Álftnesinga að leiðarljósi til lengri framtíðar," segir í tilkynningu frá bæjarstjórninni.