Á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna í dag var samþykkt ályktun þar sem mótmælt er harðlega hugmyndum stjórnvalda um upptöku aflaheimilda.
„Upptaka aflaheimilda er alvarleg ógn við íslenskan sjávarútveg og bein aðför að landsbyggðinni. Þessar hugmyndir hafa þegar valdið atvinnugreininni og tengdum þjónustugreinum fjárhagstjóni. Með upptökunni yrði gerður að engu sá ávinningur og sú hagræðing sem náðst hefur í sjávarútvegi undanfarin ár," segir m.a. í ályktuninni.
Þar segir einnig að upptaka aflaheimilda leiðir til stórfellds skaða vegna gjaldþrota fyrirtækja í sjávarútvegi og kostnaðurinn myndi lenda á þjóðfélaginu öllu vegna taps banka, ríkissjóðs, sveitarsjóða og allra viðskiptavina sjávarútvegsins.
„Fundurinn skorar á stjórnvöld að eyða nú þegar þeirri óvissu sem ríkir varðandi starfsumhverfi greinarinnar og hverfa frá hugmyndum sínum um upptöku aflaheimilda."