Íslenski tölvuleikjaframleiðandinn CCP, sem vinnur nú að framleiðslu á þremur stórum tölvuleikjum á Íslandi, í Bandaríkjunum og Kína, hyggst fjölga starfsmönnum sínum verulega á næstu 12–18 mánuðum eða um rúmlega 150 manns.
Að sögn fyrirtækisins hefur það þegar ráðið til sín um 90 starfsmenn það sem af er þessu ári og vinna nú um 450 manns hjá CCP, þar af 230 á Íslandi.
Fyrirtækið segir, að tækifæri sé til þess að ráða stóran hluta af þessum 150 starfsmönnum á Íslandi ef mannskapur fæst. Fyrirtækið leiti nú logandi ljósi að fólki með menntun á sviði verkfræði, tölvunarfræði, stærðfræði, eðlisfræði auk hönnuða af ýmsu tagi, til þess að framleiða afþreyingarvörur framtíðarinnar.