Skipulagsstofnun hefur á ný tekið ákvörðun um að umhverfisáhrif Suðvesturlína skuli ekki metin með öðrum framkvæmdum sem tengjast fyrirhuguðu álveri í Helguvík á Reykjanesi.
Suðvesturlínum er ætlað að styrkja rafmagnsflutningskerfið frá Hellisheiði að Reykjanesi. Skipulagsstofnun tók í mars ákvörðun um að ekki skyldi fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlína og öðrum framkvæmdum sem tengjast framkvæmdum í Helguvík. Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, felldi þá ákvörðun úr gildi í september og lagði fyrir Skipulagsstofnun að taka málið fyrir að nýju.
Skipulagsstofnun segir, að þau sjónarmið sem umhverfisráðherra lagði helst til grundvallar niðurstöðu sinni hafi verið þau að stofnunin hefði ekki upplýst málið nægjanlega og hefði ekki haft samráð við framkvæmdaaðila og leyfisveitendur í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.
Stofnunin leitaði í kjölfarið umsagna Orkuveitu Reykjavíkur og HS Orku, sem helst voru talin áforma virkjanir á svæðinu, sveitarfélaga og stofnana. Þær framkvæmdir sem helst gætu komið til greina í þessu sambandi eru að mati Skipulagsstofnunar virkjanir við Bitru og Hverahlíð, stækkun Reykjanesvirkjunar, jarðhitanýting við Gráuhnúka, Eldvörp og Krýsuvíkursvæðið.
Þá segir Skipulagsstofnun, að þær fyrirhuguðu framkvæmdir á Reykjanesi, sem væntanlega muni nýta sér flutningskerfi Suðvesturlína, séu, auk álvers í Helguvík gagnaver á Ásbrú í Reykjanesi og kísilmálmverksmiðja í Helguvík.
Segir Skipulagsstofnun í niðurstöðu sinni að ekki séu að hennar mati uppfyllt lagaskilyrði um að fleiri en ein matsskyld framkvæmd sé fyrirhuguð sem unnt sé að láta meta sameiginlega, sér í lagi ef höfð sé í huga sú túlkun sem komi fram í úrskurði umhverfisráðherra frá 3. apríl 2008, vegna álvers í Helguvík en þar var niðurstaðan sú, að ákvörðun um sameiginlegt mat skuli liggja fyrir áður en tekin sé ákvörðun um matsáætlun.
Kæra má ákvörðun Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra og er kærufrestur til 4. desember 2009.