Samið um úrræði vegna skuldavanda

Skrifað verður á morgun undir samning, sem stjórnvöld hafa gert við fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóði og Íbúðalánasjóð um úrræði vegna skuldavanda einstaklinga og heimila og framkvæmd þeirra.

Samkvæmt upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu er um að ræða greiðslujöfnun fasteignaveðlána, greiðslujöfnun bílalána og bílasamninga og samkomulag um sértæka skuldaaðlögun.

Undirritað verður samkomulag við öll fjármálafyrirtæki sem veitt hafa einstaklingum fasteignaveðlán. Markmið greiðslujöfnunar þessara lána er greiðslubyrði reglulegra afborgana færð aftur til þess sem hún var fyrir hrun.

Félagsmálaráðuneytið segir, að með þaki á greiðslujöfnunina sé tryggt að lenging láns vegna hennar umfram gildandi lánasamning verði aldrei meiri en þrjú ár. Ef einhverjar eftirstöðvar verða á láninu að þeim tíma liðnum verða þær felldar niður. Úrræðið er aðeins ætlað einstaklingum og heimilum. Rétt til greiðslujöfnunar eiga einstaklingar sem eru í skilum og uppfylla skilyrði samkomulagsins að öðru leyti.

Sækja þarf um greiðslujöfnun fasteignaveðlána í erlendri mynt. Eigi greiðslujöfnun að taka gildi á gjalddaga láns í desember þarf umsókn að berast viðkomandi fjármálafyrirtæki eigi síðar en 10 dögum fyrir gjalddaga.

Greiðslujöfnun bílalána og bílasamninga

Undirritað verður samkomulag við þá aðila sem veitt hafa bílalán og bílasamninga, jafnt verðtryggð lán og samninga eða í erlendri mynt. Rétt til greiðslujöfnunar eiga einstaklingar sem eru í skilum og uppfylla skilyrði samkomulagsins að öðru leyti.

Markmið greiðslujöfnunar þessara lána og samninga er að færa mánaðarlega greiðslubyrði aftur til þess sem hún var fyrir hrun. Þriggja ára þak er á greiðslujöfnun þessara lána/samninga. Ef eftirstöðvar eru einhverjar að þeim tíma liðnum þarf viðkomandi að greiða þær að fullu eða skila bílnum eins og skilmálar kveða á um.

Sækja þarf um greiðslujöfnun bílalána og bílasamninga. Eigi greiðslujöfnun að taka gildi á gjalddaga í desember þarf umsókn að berast viðkomandi fjármálafyrirtæki eigi síðar en 10 dögum fyrir gjalddaga. 

Samkomulag um sértæka skuldaaðlögun

Undirritað verður samkomulag um sértæka skuldaaðlögun við öll fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóði og Íbúðalánasjóð.  

Sértæk skuldaaðlögun er ætluð einstaklingum sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum þar sem fullreynt er að vægari úrræði nægja ekki til lausnar á vandanum. Skuldaaðlögun felur í sér samning milli kröfuhafa og lántaka um leið til að laga skulda- og eignastöðu lántakans að greiðslugetu hans. Lántakinn greiðir af skuldum sínum eins og greiðslugeta hans leyfir á samningstímanum en kröfuhafar fallast á eftirgjöf krafna, hlutfallslega lækkun þeirra eða gjaldfrest á þeim kröfum sem eru umfram greiðslugetu.

Einstaklingur sem leitar eftir skuldaaðlögun skal snúa sér beint til aðalviðskiptabanka síns (banka eða sparisjóðs) sem leiðir skuldaaðlögunarferlið og telst því umsjónaraðili. Með aðalviðskiptabanka er átt við þann banka eða sparisjóð þar sem viðkomandi er með launareikning sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert