Tilveran á hvolfi

Desember verður frumsýndur í nóvember, nánar tiltekið á föstudaginn eftir viku. Þarna er á ferð nýjasta afsprengi kvikmyndaleikstjórans Hilmars Oddssonar. Að þessu sinni er bíómyndin á léttu nótunum, þótt vissulega fjalli hún um nokkuð dramatíska atburði í lífi Jonna, sem Tómas Lemarquis leikur.

Sagan segir af popparanum Jonna sem snýr heim til Íslands í byrjun desember eftir langdvöl erlendis. Hann dreymir um að koma gamla bandinu sínu saman á ný og byrja aftur með gömlu kærustunni (söngkonunni í hljómsveitinni) og halda jól með fjölskyldunni.

Hann uppgötvar þó fljótlega eftir heimkomuna að allt hefur breyst. Kærastan er komin með nýjan, fjölskyldan glímir við veikindi og fjárhagsvandræði svo tilveran er beinlínis komin á hvolf.

Mótleikari Tómasar í myndinni er tónlistarkonan Lay Low, en þetta í fyrsta sinn sem hún reynir fyrir sér sem leikari.  Auk þeirra tveggja fara Laufey Elíasdóttir, Stefán Hallur Stefánsson, Ellert Ingimundarson, Guðrún Gísladóttir og Unnur Birna Jónsdóttir með hlutverk í myndinni ásamt fleirum en handritið skrifaði Páll Kristinn Pálsson. Framleiðendur eru Anna María Karlsdóttir og Hrönn Kristinsdóttir 

Rætt er við Tómas og Lay Low í Sunnudagsmogga helgarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert