Samþykkt var á aðalfundi LÍÚ í dag að skora á sjávarútvegsráðherra að auka þorskaflamarkið í 160 þúsund tonn eins og það var á síðasta ári. Þá vill LÍÚ að gefinn verði út 50 þúsund tonna loðnukvóti og sett verði aflamark á skip í makrílveiðum.
Í ályktun fundarins segir m.a. að engin áhætta væri tekin með því að auka þorskkvótann ekkert tilefni hafi verið til þess að minnka aflamarkið um 10 þúsund lestir við núverandi aðstæður en þorskkvóti á nýbyrjuðu fiskveiðiári er 150 þúsund tonn.
Þá segir fundurinn, að í ljósi breyttrar hegðunar á loðnu og óvissu um útbreiðslu stofnsins sé lagt til við sjávarútvegsráðherra að hann ákveði þegar í stað 50 þúsund tonna rannsóknakvóta fyrir komandi vetrarvertíð.
Um hvalveiðar sumarsins segir LÍÚ, að nýafstaðin hvalveiðivertíð hafi verið árangursrík þar sem veiddar voru 125 langreyðar og 69 hrefnur. Veiðar og vinnsla afurða hafi skapað 200 manns atvinnu meðan á vertíðinni stóð. Skoraði aðalfundur LÍÚ á ráðherra að tryggja að áfram verði hægt að veiða hval við Ísland í anda ábyrgrar og skynsamlegrar nýtingar sjávarauðlinda.