Allir reyna að vanda sig og leggja skynsamlegar viðmiðunarreglur til grundvallar úrvinnslu skuldamála fyrirtækja, segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. Hann vill ekki tjá sig um einstök mál en segir oft vandasamt og umdeilanlegt þegar kemur að því að ákveða hvaða leiðir eru farnar.
„Við höfum lagt áherslu á það sem kemur fram í eigendastefnunni, þær áherslur sem við höfum mótað um jafnræði, skipulögð og samræmd vinnubrögð og gagnsæi,“ segir Steingrímur og bætir við að hann hafi séð hugmyndir og tillögur hjá bönkunum, á mismunandi stigum, um mótun sinnar aðferðarfræði. „Að sjálfsögðu er leitast til að vinna þessi mál á faglegum forsendum og ég held að í aðalatriðum séu allir að reyna vanda sig og leggja skynsamlegar viðmiðunarreglum til grundvallar úrvinnslu þessara mála.“
Spurður út í fréttir af mögulegum afskriftum skulda Haga og móðurfélags þess, 1998 ehf., segist Steingrímur ekki vera svo kunnugur málinu að hann geti tjáð sig um það. „En sambærilegum vinnubrögðum á að beita við sambærilegar aðstæður og ekki á að fara í manngreinaálit í þeim efnum.“
Steingrímur tekur fram að frammistaða stjórnenda skipti að sjálfsögðu máli. „Hvort reksturinn sé í lagi og menn hafi lent í vandræðum af óviðráðanlegum orsökum eða fyrir eigin mistök. Allt þarf þetta að meta eftir bestu getu.“
Steingrímur segir ekki vikist frá því að horfast í augu við það, að vinna úr málefnum mjög skuldsettra fyrirtækja. „En auðvitað átta allir sig á því, að þetta eru vandasöm og umdeilanleg mál, sér í lagi þegar ákveðið er hvaða leiðir skuli fara.“