Seðlabanki Íslands tilkynnti í morgun um fyrsta skrefið í afnámi gjaldeyrishafta með því að heimila fjárfestum að koma inn með erlendan gjaldeyri til nýfjárfestinga og fara með hann aftur úr landi þegar þegar hentar.
Með þessu fá fjárfestar heimild án takmarkana til þess að skipta aftur í erlendan gjaldeyri söluandvirði eigna sem þeir fjárfesta í eftir 1. nóvember 2009.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði að gjaldeyrishöft hefðu verið talin nauðsynleg til að stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði lagt til að þessi leið væri farin. Án hafta þyrftu vextir að vera miklu hærri en þeir eru í dag. Már sagði að skilyrði fyrir afnámi hafta væri að fyrir lægi langtímaáætlun í ríkisfjármálum, að aðstæður hefðu skapast fyrir meiri stöðugleika í efnahagsmálum og gengismálum og að búið væri að endurskoða efnahagsáætlun AGS.
Már sagði að næsta skref í afnámi hafta væri að slaka á reglum um fjármagnsflutninga út úr landinu. Áður en það skref yrði stigið þyrfti að liggja fyrir að framkvæmd á fyrsta áfanga hefði gengið vel. Ennfremur að stöðugleiki væri á gjaldeyrismarkaði og að framgangur efnahagsáætlunar stjórnvalda gengi vel.
Fjármálaeftirlitið mun hafa eftirlit með fjármálafyrirtækjum sem taka að sér að breyta gjaldeyrisinnstreymi vegna nýfjárfestinga í krónur. Til að hægt verði að flytja féð aftur úr landi þarf að skrá nýfjárfestinguna hjá Seðlabanka Íslands en með því móti mun bankinn geta fylgst með því fé sem kemur og geta gripið inn í til að efla gjaldeyrisforðann ef aðstæður leyfa.
Seðlabankinn tilkynnti einnig um endurbætur á gjaldeyrisreglum í því skyni að draga úr misræmi og koma í veg fyrir að hægt verði að fara í kringum höftin.
Í tilkynningu kemur fram að stærstu breytingar eru eftirfarandi: