Fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst um 4 prósentustig frá síðasta mánuði, samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallups og sagt var frá í fréttum RÚV. Fylgi flokksins er nú 33% og hefur ekki verið meira síðan í júní á síðasta ári.
Samfylkingin mælist 25% (26% í síðustu könnun), Vinstri græn mælast með 23% (22% síðast) og 16% segjast ætla að kjósa Framsóknarflokkinn (18% ísíðustu könnun) en 3% nefna aðra flokka. Fylgi Samfylkingar lækkar því um eitt prósentustig frá fyrri mánuði, Vinstri græn hækka um eitt prósentustig en Framsókn dalar um tvö prósentustig.
48% svarenda segjast styðja ríkisstjórnina sem er svipað og í síðustu könnun.
Niðurstöður eru úr netkönnun sem Capacent Gallup gerði dagana 29. september – 29. október. Heildarúrtaksstærð var 4.931 manns af öllu landinu og svarhlutfall var 59,5%.