„Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga treystir því að staðið verði við það mikilvæga loforð sem gefið var í viðræðum um stöðugleikasáttmálann af hálfu forsætisráðherra og fjármálaráðherra með stuðningi aðila vinnumarkaðarins, og felst í því að komi til hækkunar tryggingagjalds verði tryggt af hálfu ríkisins að hækkunin leiði ekki til útgjaldaauka sveitarfélaga."
Þetta segir í ályktun sem stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkti í gær. Samtök atvinnulífsins hafa lagt til að tryggingagjald verði hækkað en í staðinn verði hætt við að leggja á orku- og auðlindagjöld. Verði þessi leið farin gæti þetta aukið útgjöld sveitarfélaganna mikið.
Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga ítrekar jafnframt bókun frá fundi sínum 28. ágúst 2009 þar sem minnt er á að ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum fyrr á þessu ári hafa veruleg áhrif til hækkunar á útgjöldum sveitarfélaga á þessu ári og því næsta, en staða margra sveitarfélaga er mjög erfið nú þegar. Áætlað er að áhrifin af hækkun tryggingagjalds sl. sumar muni nema um tveimur milljörðum króna á árunum 2009 og 2010 og hefur í för með sér að öll sú hagræðing sem sveitarfélögin hafa verið að vinna að í launaútgjöldum er unnin fyrir gíg.
"Sveitarfélögin hafa fram til þessa lagt höfuðáherslu á að verja störfin og forðast uppsagnir, þrátt fyrir verulega hækkun útgjalda, s.s. vegna félagsþjónustu þar sem fjárhagsaðstoð hefur hækkað um 70% og húsaleigubætur um 60% milli ára. Sveitarfélögin geta ekki við þessar aðstæður tekið á sig aukin útgjöld vegna ráðstafana í ríkisfjármálum."