Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands opnaði í dag yfirlitssýningu á verkum Svavars Guðnasonar í Listasafni Íslands. Sýningin varpar ljósi á þróun Svavars frá miðjum fjórða áratug liðinnar aldar til þess níunda.
Ólafur Ragnar sagði þegar hann opnaði sýninguna frá lítilli mynd eftir Svarvar sem er í Bessastaðastofu. Margrét Danadrottning gaf forsetahjónunum myndina stuttu eftir að Ólafur Ragnar var kjörinn forseti. "Myndina hafði hún fundið sjálf í galleríi í Árósum; fór fögrum orðum um sess Svavars í danskri listasögu, minnti á að hann var ekki aðeins einn hinna stóru á heimavelli Íslendinga heldur líka áhrifaríkur brautryðjandi á vettvangi norrænnar og evrópskrar málaralistar."
Ólafur Ragnar sagði að þegar Svavar kom heim frá Kaupmannahöfn, alkominn til Íslands, hafi svipmót menningarlífsins á Íslandi verið fátæklegt. "Hann yfirgaf ólgandi vettvang þar sem evrópskir straumar sköpuðu jafnan titring í lofti og hélt heim í kyrrlátt andrúmsloft þar sem list hans var mörgum framandi og á stundum fordæmd, umræðan löngum lituð af flokkadráttum í köldu stríði.
Það þurfti ríkulegt innra öryggi, listrænt sjálfstraust til að sækja fram við slíkar kringumstæður, halda áfram að vaxa að myndrænum krafti. En það gerði Svavar og hér getur að líta mörg hans bestu verka; verk sem sóttu hughrif í náttúruna en voru samt á heillandi hátt einkar sjálfstæð, túlkuðu litasinfóníu Íslands á ferskan hátt, blönduðu gulu, grænu og bláu í listræna ólgu."