Samningar um úrræði vegna skulda einstaklinga undirritaðir

Samningar við fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóði og Íbúðalánasjóð um úrræði vegna skuldavanda einstaklinga og heimila og framkvæmd þeirra voru undirritaðir í félags- og tryggingamálaráðuneytinu núna kl 10 og tóku þeir gildi við undirritun.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að samningarnir nái til úrræða vegna greiðslujöfnunar fasteignaveðlána í erlendri mynt, bílalána og bílasamninga og samkomulags um sértæka skuldaaðlögun. Einstaklingar sem óska eftir að nýta sér úrræðin þurfa að sækja um þau sérstaklega. Aðeins einstaklingar sem eru í skilum og uppfylla skilyrði samkomulagsins að öðru leyti eiga rétt til greiðslujöfnunar

Greiðslujöfnun fasteignalána
Samkomulagið nær til allra fjármálafyrirtækja sem hafa veitt einstaklingum fasteignalán. Markmið með greiðslujöfnun fasteignaveðlána er sagt að færa greiðslubyrði reglulegra afborgana aftur til þess sem hún var fyrir hrun. Þaki á greiðslujöfnunina er ætlað að tryggja að lenging láns vegna hennar umfram gildandi lánasamning fari aldrei yfir þrjú ár. Að þeim tíma liðnum verða eftirstöðvar felldar niður, ef einhverjar verða eftir.

Greiðslujöfnun bílalána og bílasamninga

Samkomulagið nær til aðila sem hafa veitt bílalán og bílasamninga, hvort sem er verðtryggð lán og samninga eða í erlendri mynt. Er markmið greiðslujöfnunar sagt að færa mánaðarlega greiðslubyrði aftur til þess sem hún var fyrir hrun. Sett er þriggja ára þak á greiðslujöfnun bílalána og samninga. Séu eftirstöðvar að þeim tíma liðnum þarf að greiða þær að fullu eða skila bílnum í samræmi við skilmála.

Samkomulag um sértæka skuldaaðlögun

Samkomulagið nær til fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs og er ætlað einstaklingum sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum, þar sem önnur úrræði hafa ekki dugað. Með skuldaaðlögun er átt við að gerður er samningur milli kröfuhafa og lántaka um leið til að laga skulda- og eignastöðu lántakans að greiðslugetu hans. Fram kemur að lántakinn greiði af skuldum í samræmi við greiðslugetu á samningstímanum. Kröfuhafar fallist á eftirgjöf krafna, hlutfallslega lækkun þeirra eða gjaldfrest á þeim kröfum sem eru umfram greiðslugetu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert