Rjúpnaskyttan sem sótt var upp á Bjarnarfell í Laxárdal í Dölum fyrr í dag er ekki alvarlega slösuð. Veiðifélagi mannsins skaut hann óvart í báða fætur en af nokkuð löngu færi. Skyttan var flutt með sjúkrabifreið á heilsugæsluna í Búðardal. Veiðifélagar hans munu svo flytja hann áfram á slysadeild Landspítala.
Maðurinn var staddur 400-600 metra upp í fjallinu þegar óhappið varð. Veiðifélagar hans kölluðu til björgunarsveit sem sótti hann og flutti niður á þjóðveg, en þar beið sjúkrabifreið.
Að sögn vakthafandi læknis á heilsugæslunni í Búðardal var líðan mannsins þokkaleg, og nógu góð til að hann fari sjálfur á slysadeild Landspítala. Þar verða högl úr fótum hans fjarlægð.
Hvorki lögreglan á Borgarnesi eða heilsugæslulæknirinn vildu tjá sig mikið um tildrög slyssins, að öðru leyti en að um algjört slysaskot hafi verið að ræða.