Hægt væri að spara um 100 milljónir í rekstri skóla í Borgarbyggð með því að leggja niður þrjá af fimm skólum sem sveitarfélagið rekur. Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur boðað til almennra íbúafunda í næstu viku til að ræða tillögur um hagræðingu í fræðslumálum.
Borgarbyggð glímir núna við miklar fjárhagserfileika. Tekjur sveitarfélagsins hafa dregist saman, m.a. vegna erfiðleika í atvinnulífi og skuldir þessa hafa hækka vegna falls gengis krónunnar. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi Borgarbyggð bréf í lok síðasta árs þar sem óskað er eftir greinargerð um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.
Borgarbyggð rekur núna grunnskóla á fimm stöðum, Borgarnesi, Varmalandi, Kleppjárnsreykjum, Hvanneyri og Laugagerði. Í skýrslu um sparnað í fræðslumálum eru lagðar fram tillögur um tvær leiðir. Í annarri (Leið A) er gert ráð fyrir að allir skólarnir verði reknir áfram, en að hámarksfjöldi í bekk verði hækkaður og árgöngum verði í einhverjum tilvikum slegið saman. Í leið B er lagt til að þrír skólar verði lagðir niður og skólar verði áfram reknir í Borgarnesi og annað hvort Varmalandi eða Kleppjárnsreykjum. Áætlað er að með þessari leið sé hægt að spara 100 milljónir í rekstri. Ekki er reynt að leggja mat á sparnað í leið A
Í grunnskólum í Borgarbyggð eru núna starfandi kennarar í 59 stöðugildum. Báðar leiðirnar sem nefndar eru í skýrslunni gera ráð fyrir stöðugildum fækki um 9-10.
Í skýrslunni er einnig að finna tillögur um sparnað í leikskólum, tónlistarskólum og í tómstundastarfi.