Íslensk fjölskylda í Danmörku datt í lukkupottinn þegar raunveruleikaþátturinn Reiði smiðurinn á Kanal 4 í Danmörku ákvað að gera hús Íslendinganna upp.
„Hinir stoltu Íslendingar Orri og Sandra höfðu mikinn metnað þegar þau keyptu húsið sitt á Amager sem þurfti „bara aðeins“ að gera upp frá kjallara til háalofts. Orri var alveg viss um að hann færi nú létt með að gera það sjálfur. Endurbæturnar á húsinu enduðu hins vegar með slíkri skelfingu að parið og börnin þeirra gátu ekki búið þar lengur og „reiði smiðurinn“ stendur frammi fyrir einni mestu ögruninni til þessa.“
Þessa kynningu á þættinum má lesa á heimasíðu Kanal 4. Þátturinn gengur út á það að „reiði smiðurinn“ Jens Andersen kemur fjölskyldum, sem siglt hafa í strand með endurbætur á húsum sínum, til bjargar og lýkur við að gera upp húsin.
Í viðtali við Söndru Maríu Arnardóttur í blaðinu Bæjarins besta þann 8. október síðastliðinn, ákváðu þau hjónin að sækja um að komast að í þættinum eftir að vatn flæddi inn í kjallarann á húsi þeirra. Húsið þeirra var valið í þáttinn og afraksturinn sýndur í síðustu viku.
Myndir af húsinu eftir endurbætur má finna á kanal4.dk/denvredetomrer.