Capacent Gallup spurði Íslendinga um viðhorf þeirra til nokkurra þjóða bæði á síðasta ári í kjölfar bankahrunsins og nú ári síðar.
Fram kemur í Þjóðarpúlsi Gallup að jákvæðni hefur aukist í garð allra þjóðanna nema Rússa og jákvæðastir eru Íslendingar í garð Norðmanna. 81% þátttakenda í könnun Capacent Gallup eru jákvæð gagnvart þeim.
Íslendingar er nokkuð jákvæðari í garð Dana nú en fyrir ári síðan. Þrátt fyrir það er enn nokkuð í að Íslendingar verði jafn jákvæðir í garð Dana og árið 2001 þegar 90% landsmanna sögðust vera jákvæð gagnvart þeim.
Íslendingar skiptast í þrjá nokkuð jafnstóra hópa þegar kemur að viðhorfi til Hollendinga, en 35% eru jákvæð í garð þeirra.
Að sama skapi eru 34% neikvæð gagnvart þeim. Fyrir ári ríkti áberandi minnst jákvæðni í garð Breta. Viðhorf Íslendinga gagnvart Bretum hefur þó batnað nokkuð og segjast nú 33% vera jákvæð gagnvart þeim. Hins vegar eru hlutfallslega flestir neikvæðir gagnvart Bretum af þeim þjóðum sem spurt var um eða um 44%.
Rússar eru eina þjóðin sem Íslendingar eru ekki jákvæðari gagnvart nú en í fyrra en 30% landsmanna eru nú jákvæð í garð þeirra.