Meiðyrðaferðamennska í Bretlandi

Jón Ólafsson.
Jón Ólafsson.

Breska blaðið Sunday Times fjallar í dag um það sem blaðið kallar meiðyrðaferðamennsku og segir, að mál kaupsýslumannsins Jóns Ólafssonar gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, prófessor, sé síðasta dæmið um þetta.

Jón stefndi Hannesi fyrir dómstóli í Lundúnum árið 2004 vegna ummæla, sem birtust á netinu. Hannes lét ummælin upphaflega falla á ráðstefnu norræna blaðamanna í Reykholti í október 1999 og birti síðan útdrátt úr erindinu  á ensku á heimasíðu sínni. Við það myndaðist grundvöllur fyrir málaferlum í Englandi.

Málaferlin urðu löng og flókin.  Dómur féll sumarið 2005 þar sem Hannes var dæmdur til að greiða Jóni tæplega tuttugu milljónir króna að núvirði í bætur og málskostnað. Hannes áfrýjaði þessum dómi til yfirréttar í London, sem ógilti í desember 2006 dóm undirréttar með þeim rökum að stefna í málinu hefði ekki verið birt Hannesi samkvæmt íslenskum lögum. Hannes mótmælti því jafnframt að dómurinn yrði fullnustaður hér á landi en að kröfu Jóns gerði sýslumaðurinn í Reykjavík fjárnám fyrir dómkröfunni í skuldabréfi sem Hannes hafði fengið vegna sölu á húseign sinni.

Jón stefndi síðan breska utanríkisráðuneytinu fyrr á þessu ári mistaka sem hann taldi að breska sendiráðið á Íslandi hefði gert  þegar Hannesi var birt stefnan á sínum tíma. Simon Minshull, sem starfaði í breska sendiráðinu í Reykjavík, var látinn birta Hannesi stefnuna árið 2004. Hannes gat síðar bent á, að Minshull hefði ekki látið hann skrifa undir til staðfestingar þess að hann hefði séð stefnuna.

Að sögn Sunday Times vann Jón málið gegn breska utanríkisráðuneytinu nú í október og var breska ríkið dæmt til að greiða honum rúmlega 90 þúsund pund, jafnvirð 18,5 milljóna auk málskostnaðar í málaferlunum öllum, sem gæti numið yfir 300 þúsund pundum, jafnvirði 62 milljóna króna.

Sunday Times kallar málið lögfræðilegan farsa sem staðfesti að London er meiðyrðamálahöfuðborg heimsins þar sem hægt sé að fá meiðyrðamál tekin fyrir í dómskerfinu án þess að þau tengist mikið Bretlandi. Menn þurfi aðeins að færa sönnur á, að þeir hafi orðstír að verja í Bretlandi og að meiðyrðum hafi verið dreift þar þótt það hafi aðeins verið gert á netinu. Aðilar þurfi ekki að vera búsettir í Bretlandi og ummælin, sem málin snúist um, þurfi ekki að tengjast breskri umfjöllun nema að litlu leyti.

Blaðið rekur síðan nokkur fleiri dæmi. Þannig hafi palestínskur stjórnmálamaður höfðað mál gegn sjónvarpsstöðinni Al-Jazeera vegna sjónvarpsútsendingar á arabísku, grískur ríkisborgari hafi höfðað mál gegn New York Times og pólitískur flóttamaður frá Túnis hafi höfðað mál gegn þýska blaðinu Die Zeit og unnið.

Við þetta má bæta, að Kaupþing höfðaði á sínum tíma meiðyrðamál gegn danska blaðinu Ekstra Bladet eftir að greinar, sem blaðið birti um bankann, voru birtar á vefsíðu blaðsins á ensku.

Sunday Times hefur eftir þingmanninum Denis MacShane, að breska meiðyrðalöggjöfin sé Bretlandi til skammar og grafi undan fullyrðingum um að Bretland verji grundvallarmannréttindi.

Frétt Sunday Times

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert