Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að kona, sem grunuð er um vændisstarfsemi, fíkniefnainnflutning og fleiri brot, sæti áframhaldandi farbanni. Hæstiréttur stytti þó farbannið til 23. nóvember en héraðsdómur hafði fallist á kröfu lögreglu um farbann til 7. desember.
Konan var í ágúst í sumar ákærð fyrir að standa að innflutningi á samtals rúmum 400 grömmum af kókaíni sem aðrir voru fengnir til að flytja til landsins. Þá var konan ákærð fyrir brot gegn valdstjórninni með því að bíta í bak lögreglumanns.
Í september var konan síðan ákærð fyrir hótanir, ólögmæta nauðung, mansal og fyrir að hafa staðið að vændisstarfsemi en talið er að konan hafi fengið erlendar konur til að koma hingað til lands og látið þær síðan stunda vændi.
Konan er íslenskur ríkisborgari en hefuri takmörkuð tengsl við landið að sögn lögreglu. Fjölskylda hennar býr erlendis og unnusti hennar er í gæsluvarðhaldi í Amsterdam vegna fíkniefnamála.