Áhersla lögð á að bólusetja sem flesta

Víða er byrjað að bólusetja vegna svínaflensu.
Víða er byrjað að bólusetja vegna svínaflensu. Reuters

Vísbendingar eru um að svínaflensufaraldurinn hafi náð eða sé að ná hámarki á höfuðborgarsvæðinu. „Maður er bjartsýnn á það. Það er ekki nándar nærri sami bratti í þessu og var,“ segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir. Þetta eigi þó eftir að koma betur í ljós á næstu dögum.

Enn sé nokkur bratti upp á við á landsbyggðinni. „Nú er okkar aðalmarkmið að bólusetja sem flesta til þess að draga fyrr úr þessu,“ segir Haraldur. 

Um 26.000 skammtar af bóluefni bárust um helgina til viðbótar við þá 4.000 skammta sem bárust í síðustu viku. Hann reiknar með því að alls verði yfir 100.000 skammtar komnir til landsins fyrir lok nóvember. „Þetta lítur ágætlega út með aðstreymi að bóluefnum.“

Unnið er að því að bólusetja áhættuhópa en svo verður öllum boðið upp á bólusetningu. „Við vonum að sem flestir taki þátt í þessu,“ segir Haraldur. Spurður um tímasetningu í því efni segir Haraldur að það sé mismunandi eftir landsvæðum. „Sumir verða búnir að bólusetja sína áhættuhópa snemma í nóvember. Þannig að þeir geta opnað þetta og byrjað að bólusetja alla sex mánaða og eldri.“

Haraldur tekur hins vegar fram að enn séu fjölmargir að greinast, en alls hafa um 7.000 manns greinst með flensuna. Þar af um 1.000 í síðustu viku. Sú tala á þó eflaust eftir að hækka.

Mikið álag á Landspítalanum

Alls hafa á annað hundrað manns lagst inn á sjúkrahús vegna flensunnar. Nú liggja 45 á sjúkrahúsi og þar af 11 á gjörgæsludeild. Álagið hefur ekki verið meira á Landspítalanum. Af þeim sökum er viðbúnaður á sjúkrahúsinu enn á svokölluðu virkjunarstigi vegna inflúensufaraldursins.

Alls hafa um 14 verið lagðir inn á gjörgæsludeild. Haraldur segir að þeir sem leggjast inn á gjörgæslu liggi þar oftast í um eina til þrjár vikur.

Heilbrigðir geta einnig veikst illa

 Hann segir að fréttir hafi borist erlendis frá að flensan geti lagst illa á heilbrigða einstaklinga ekki síður en þá sem hafa undirliggjandi sjúkdóma.  „Ég hugsa að það sé um 20% af þeim sem hafa verið lagðir inn á gjörgæslu sem hafa ekki verið með augljósa undirliggjandi sjúkdómsþætti hjá okkur,“ segir Haraldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka