Engir fyrirvarar af hálfu AGS

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mynd/norden.org

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að engir fyrirvarar hefðu verið settir af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins varðandi afgreiðslu Icesave-skuldbindinga Íslands á Alþingi. 

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði Steingrím í dag, í ljósi frétta af afstöðu nokkurra þingmanna Vinstri grænna til Icesave-frumvarpsins sem nú liggur fyrir Alþingi, hvort settir hefðu verið fyrirvarar af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar efnahagsáætlun Íslands var endurskoðuð í síðustu viku. Þá spurði Ragnheiður Elín hvort Steingrímur ætti von á einhverskonar aðgerðum af hálfu sjóðsins verði Icesave-frumvarpið ekki samþykkt og hvort íslensk stjórnvöld hefðu veitt sjóðnum og Norðurlöndunum fullvissu fyrir því að frumvarpið yrði afgreitt.

Steingrímur sagði að framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefði einfaldlega endurskoðað efnahagsáætlun Íslands og samþykkt hana án nokkurra skilyrða eða fyrirvara og tekið skýrt fram, að þar með opnaðist aðgangur Íslendinga að gjaldeyrislánum frá sjóðnum og Norðurlöndum.  

Steingrímur sagði það síðan vera höndum fjárlaganefndar og Alþingis að ljúka vinnu við Icesave-frumvarpið og hann er bjartsýnn á að það fái farsæla lausn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka