Hiti var í ríflegu meðallagi um mikinn hluta landsins í október nema norðaustanlands þar sem hann var lítillega undir því að því er kemur fram í yfirliti Veðurstofunnar.
Talsvert kuldakast var ríkjandi í upphafi mánaðarins og festi þá snjó um mikinn hluta landsins. Veður hlýnaði síðan og voru síðustu dagarnir sérlega hlýir ásamt nokkrum dögum um miðbik mánaðarins. Suðaustan- og austanillviðri gerði um landið sunnan- og vestanvert föstudaginn 9. okótber.
Meðalhiti í Reykjavík var 5,1 stig og er það 0,7 stigum yfir meðallagi. Á Akureyri var meðalhitinn 2,8 stig eða 0,2 stigum undir meðallagi. Á Höfn í Hornafirð var meðalhitinn 5,1 stig og er það 0,6 stigum yfir meðallagi. Meðalhitinn á Hveravöllum var -1,2 stig og er það í meðallagi.