Íslenskur karlmaður situr nú í fangelsi í Argentínu en hann var handtekinn með fimm kíló af kókaíni á Ezeiza-flugvellinum í Buenos Aires. Maðurinn, sem er á sextugsaldri, var á leiðinni til Spánar.
Samkvæmt upplýsingum frá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra var maðurinn handtekinn 13. október sl. Hún staðfestir að Íslendingurinn sé fyrrverandi lögreglumaður.
Alþjóðadeildinni bárust upplýsingar um málið fljótlega eftir handtökuna í gegnum samskiptanet Interpol. Ekki fylgir sögunni hvort maðurinn hafi verið í slagtogi með fleiri einstaklingum. Alþjóðadeildin fylgist með málinu og bregst við sé þess óskað.