Fréttaskýring: Íslenskir kennarar hafa trú á eigin getu

Gott andrúmsloft í kennslustofunni og gott samband við nemendur var …
Gott andrúmsloft í kennslustofunni og gott samband við nemendur var meðal þess sem hafði mikil áhrif á starfsánægju kennara.

Trú íslenskra kennara á eigin getu er með því sem best gerist, samkvæmt alþjóðlegri samanburðarrannsókn sem unnin var fyrir menntamálaráðuneytið í samvinnu við OECD. Starfsánægja kennara hér á landi er enn fremur mikil í samanburði við önnur lönd. Meiri hluti kennara er þó engu að síður þeirrar skoðunar að ekki sé borin virðing fyrir starfinu í sínu sveitarfélagi.

24 ríki tóku þátt í rannsókninni sem nefnist Teaching and Learning International Survey (TALIS). Hér á landi voru endanlegir spurningalistar lagðir fyrir í mars 2008 og náði úrtakið til 20 kennara í hverjum þeirra 200 skóla sem tóku þátt. Yfir 90% íslenskra kennara reyndust í heildina sátt við starf sitt. Mikill meirihluti taldi sig líka hafa afgerandi áhrif á menntun nemenda og að þeir gætu náð góðum árangri, jafnvel með erfiðustu nemendur. Trú á eigin getu, gott samband kennara og nemenda og gott andrúmsloft í kennslustundum voru líka meðal þeirra þátta sem höfðu hvað mest áhrif á starfsánægju kennara. Athygli vakti og að konum fannst þær hafa meiri afgerandi áhrif á menntun nemenda sinna en karlar.

Fleiri minna menntaðir

90% kennara á yngsta og miðstigi eru konur og á unglingastigi eru 69% konur. Um 10% grunnskólakennara reyndust með menntun sem ekki náði háskólastigi og færri kennarar hér á landi reyndust með meistaragráðu eða meiri menntun en í mörgum öðrum ríkjum sem þátt tóku í könnuninni.

Meira virðist líka um að íslenskir kennarar aðhyllist hugmyndasmíðihyggju (constructivism) en kennarar í öðrum þátttökuríkjum. Þeir líti svo á að frumkvæði þekkingarleitar eigi að liggja hjá nemanda, ekki í ítroðslu staðreynda undir forræði kennara. Íslenskir kennarar hafni því frekar hugmyndum um hefðbundna beina kennslu (direct transmission). Kennsluaðferðir karla reyndust þó meira í anda hefðbundinnar kennslu en aðferðir kvenna. Íslenskir karlar úr röðum kennara voru enn fremur frekar þeirrar skoðunar að kennarar ættu ekki að láta nemendur koma með svör sem væru hugsanlega röng þegar skýra mætti svörin beint. Konur virtust hins vegar þeirrar skoðunar að betra væri að nemendur fengju sjálfir tækifæri til að finna lausn á viðfangsefnum.

Aukin fræðsla um sérþarfir

Kennarar hér á landi taka mikinn þátt í námskeiðum og samstarfi kennara innan skóla sem utan og taka konur þátt í fleiri starfsþróunarverkefnum en karlar. Réttindanám og rannsóknaverkefni eru þó minna stunduð hér á landi en í flestum öðrum þátttökulöndum og einnig var áhugi á starfsþróun minni.

Mest var þörfin fyrir starfsþróun hins vegar talin á sviði kennslu nemenda með sérþarfir, námsmats, sem og aga- og hegðunarvandamála. Á yngsta og miðstigi fara um 22% af tíma kennara í að halda aga í bekknum, en á unglingastigi er hlutfallið 17%. Það voru líka kennarar á yngsta og miðstigi sem töldu sig frekar hafa þörf fyrir starfsþróun en kennarar á unglingastigi.

Verður fylgt eftir

Niðurstöður rannsóknarinnar verða skoðaðar frekar að sögn Ragnars F. Ólafssonar verkefnisstjóra Talis rannsóknarinnar hér á landi. „Við munum halda reglulega fundi, líkt og við höfum gert með niðurstöður Pisa-kannananna, þar sem þessir þættir verða skoðaðir frekar.“

Talsvert hátt hlutfall kennara í könnuninni hér á landi, eða um 10%, var ekki með háskólapróf og segir Ragnar þann hóp alltaf hafa skorið sig úr í svörum. „Það var sáralítill munur á hinum, hvort sem þeir voru með meistarapróf eða eingöngu BA-gráðu.“ Mikil áhersla hefur undanfarið verið lögð á að auka menntun kennara – að sem flestir hafi meistarapróf. Talis rannsóknin vekji hins vegar spurningar um það hvort ekki sé rétt að ná fyrst því stigi að allir kennarar hafi háskólapróf.

Skólabörn
Skólabörn mbl.is/Eggert
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert