Kerfið frá 2007 ekki tekið upp

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra á Alþingi í dag.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra á Alþingi í dag. mbl.is/Kristinn

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að við endurskipulagningu fyrirtækja ættu menn vitaskuld ekki að taka upp kerfið frá 2007 og reisa það við óbreytt. „Við munum almennt ekki endurreisa öll hin föllnu eignarhaldsfélög sem tröllriðu þjóðfélaginu og skilja það núna eftir með mörghundruð milljarða króna skuldir,"   sagði Gylfi.

Hann var að svara spurningu frá Lilju Mósesdóttur, þingmanni VG, um verklagsreglur bankanna við endurskipulagningu á föllnum fyrirtækjum. Sagði Lilja, að þær verklagsreglur virtust ekki koma í veg fyrir, að einn helsti forsvarsmaður útrásarinnar haldi skuldsettu fyrirtæki sínu eftir endurskipulagningu.

Gylfi sagði, að annað mál væri hvað gera ætti við öll þau rekstarfélög, sem eða eða voru um tíma í eigu þessara eignarhaldsfélaga. Vel kynni að vera að skynsamlegt væri að gera þar á einhverjar breytingar og koma þeim í heldur nýrra eigenda. Sagðist Gylfi fastlega gera ráð fyrir því að það verði niðurstaðan í einhverjum tilfellum. 

Gylfi sagði að það væri hins vegar ekki hlutverk ráðherra að hafa afskipti af meðferð bankakerfisins á einstökum fyrirtækjum og Bankasýslunni hefði m.a.verið komið á fót til að tryggja að það sjónarmið gengi eftir. 
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka