Mikill munur er á verði á ávöxtum og grænmeti milli verslana, að því er fram kemur í nýrri verðkönnun ASÍ. Rauð epli voru ódýrust í Nettó 129 kr. kg en dýrust í 10-11, 499 kr. kg. Verðmunurinn er 287%. Oftast er ódýrasta vöruverðið hjá Bónus eða í 49 skipti af 70 vörutegundum sem kannaðar voru.
Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun í matvöruverslunum víða um landið þann 27. október s.l. og reyndist mikill verðmunur á verðlagi í verslunum eftir tegund verslunar.
10-11 var oftast með hæsta vöruverðið eða í 35 skipti. Segir á vef ASÍ að ekki hafi reynst unnt að mæla verð á 21 vörutegund í 10-11 þar sem þær voru ekki fáanlegar í versluninni.
Verðmunur á drykkjarvörum er oftast á bilinu 90–110%. Ef skoðaðar eru kjötvörur kemur í ljós að verðmunurinn er oftast á bilinu 60 –70%. Mestur verðmunur er á ferskum kjúklingabringum, þær eru ódýrastar í Nettó á kr. 1.399 en dýrastar í 10-11 á 3.199 kr./kg. sem er 129% verðmunur.
Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum; Bónus Akureyri, Krónunni Vestmannaeyjum, Nettó Akureyri, Hagkaup Skeifunni, Fjarðarkaupum Hólshrauni, Nóatún, Hringbraut 121, Samkaup – Úrval Egilsstöðum, Ellefu ellefu Vestmannaeyjum, 10-11 Borgartúni og Samkaup Strax, Suðurveri.