Seðlabanki Íslands fór fram á það við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að skýrsla um stöðu efnahagsmála á Íslandi yrði ekki birt í dag eins og til stóð.
Haft var eftir Stefáni Jóhanni Stefánssyni, talsmanni Seðlabankans, í fréttum Ríkisútvarpsins, að bankinn hefði fengið skýrsluna til yfirlestrar og gert athugasemdir sem komið var til skila í morgun.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagðist á Alþingi síðdegis í dag ekki hafa upplýsingar um hvers vegna skýrslan hefði ekki verið birt í dag eins og áður hafði verið boðað.
Stöð 2 sagði, að fjarlægja ætti tölulegar upplýsingar um íslensk efnahagsmál úr skýrslunni sem þættu of viðkvæmar.