Hópur Íslendinga hefur sent Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, bréf þar sem óskað er eftir fundi með honum um efnahagsáætlun Íslands og fá skýringar á einstökum þáttum hennar.
Um er að ræða hóp sem m.a. stóð fyrir borgarafundum í Reykjavík sl. vetur. Í bréfi, sem hópurinn hefur sent, segir að hann telji það vafa undirorpið að sú samvinna, sem Ísland hafi tekið upp við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sé íslenskri þjóð til hagsbóta. Það sé að renna upp fyrir þeim að stefna sjóðsins er öðru fremur að skuldsetja íslensku þjóðina til að gæta hagsmuna fjármagnseigenda.
Þá segist hópurinn muni leggja fram rökstudda gagnrýni byggða á opinberum gögnum. Fundurinn með Strauss-Kahn geti farið fram í Reykjavík eða Washington eða annars staðar ef það hentar. Afar brýnt sé að fundurinn fari fram sem allra fyrst og eigi síðar en 15. desember.