Tilkynnt var um innbrot í bílskúr við Heiðarbrún í Hveragerði i gær en þar var stolið 22ja cal riffli af TOZ gerð og haglabyssu af gerðinni L. Franshi. Innbrotið hefur verið framið á tímabilinu frá 24. til 30. október. Lögreglan á Selfossi biður þá sem veitt geta upplýsingar um málið að hafa samband í síma 480 1010.
Á fyrsta degi rjúpnaveiðitímabilsins, föstudag, komu nokkur verkefni til kasta lögreglunnar á Selfossi. Afskipti voru höfð af tveimur mönnum sem voru að skjóta á rjúpu inni í sumarbústaðalandi í Biskupstungum. Mennirnir höfðu í fórum sínum tvo riffla og haglabyssu auk skotfæra. Annar mannanna var ekki með gilt skotvopnaleyfi né veiðileyfi. Skotvopnin voru öll ólögleg til veiða og var lagt hald á þau. Að lokinni rannsókn mun málið verða sent til saksóknara til frekari meðferðar.
Við Bláfell var rjúpnaveiðimaður staðinn að því að aka fjórhjóli utan vegar. Því til viðbótar reyndist hann með haglabyssu sem var með fimm skot í skotgeymi þar sem heimilt er að vera með mest þrjú.
Síðdegis barst lögreglu tilkynning um týndan rjúpnaveiðimann við Skjaldbreið. Björgunarsveitir voru ræstar út til leitar. Skömmu síðar var tilkynnt að maðurinn væri fundinn. Hann hafði orðið viðskila við félaga sína þegar þoka skall skyndilega á. Maðurinn var ekki með áttavita né leiðsögutæki auk þess óvanur, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.