Hafa hreðjatök á bönkunum

Sigrún Davíðsdóttir flutti erindi á fjölmennum fundi hjá Sagnfræðingafélag Íslands …
Sigrún Davíðsdóttir flutti erindi á fjölmennum fundi hjá Sagnfræðingafélag Íslands í dag. mbl.is

Þeir sem fengu mest lánað hafa hreðjatök á bönk­un­um. Framund­an eru mik­il átök sem m.a. snú­ast um hvort tekst að koma á breyt­ing­um í ís­lensku fjár­mála­lífi. Þetta sagði Sigrún Davíðsdótt­ir blaðamaður í fyr­ir­lestri sem hún hélt á mjög fjöl­menn­um fundi hjá Sagn­fræðinga­fé­lagsi Íslands í dag.

Sigrún kallaði fyr­ir­lest­ur­inn „Krepp­an og kunn­ingjaþjóðfé­lagið". Sigrún hef­ur fylgst með ís­lensku út­rás­inni og skrifað um hana bæði fyr­ir og eft­ir að bank­arn­ir féllu. Hún hef­ur búið í Kaup­manna­höfn og London síðustu ár.

Sigrún sagði að bank­arn­ir hefðu verið rekn­ir með þeim hætti að þeir hefðu skekkt öll viðmið í sam­fé­lag­inu. Menn sem hefðu verið að reka fyr­ir­tæki með þokka­leg­um hagnaði hefðu talið að þeir væru að gera ein­hver mis­tök þegar þeir hefðu borið sín­ar hagnaðartöl­ur sam­an við hagnað bank­anna. Í öðru lagi hefðu launa­greiðslur bank­anna skekkt allt launa­kerfið og eitrað út frá sér.  Í þriðja lagi hefðu bank­arn­ir skekkt öll hlut­föll með stefnu sinni í lána­mál­um. Þeir sem hefðu tekið mest að láni hjá bönk­un­um hefðu verið komn­ir í þá stöðu að geta horft niður á bank­ana. „Áhrif þess­ara skekktu hlut­falla gæt­ir enn í dag. Þeir sem náðu lengst hafa hreðjatök á bönk­un­um."

Höguðu sér ekki eins og hugs­andi ver­ur

Sigrún talaði við út­lend­ing sem störfuðu hjá fyr­ir­tækj­um sem Íslend­ing­ar eignuðust í Bretlandi og Dan­mörku þegar út­rás­ar­vík­ing­arn­ir voru að gera strand­högg í þess­um lönd­um. Hún sagði að þeir hefðu í sam­töl­um við sig sagt að Íslend­ing­arn­ir væru dug­leg­ir en höguðu sér kannski al­veg eins og hugs­andi ver­ur. Þeir hefðu haft áhyggj­ur af krosseigna­tengsl­um ís­lensku fyr­ir­tækj­anna og að stjórn­end­ur þeirra færu ekki fram með nægi­legri fyr­ir­hyggju.

Sigrún sagði að sér væru minn­is­stæð um­mæli sem einn af for­ystu­mönn­um í ís­lensku út­rás­inni lét falla í sam­tali við sig árið 2005. Hann hefði sagt að ef einu af ís­lensku fyr­ir­tækj­un­um yrði al­var­lega á í mess­unni myndi það hafa áhrif á alla í ís­lensku út­rás­ina. A.m.k. sum­ir hefðu því gerst sér vel grein fyr­ir áhætt­unni.

Sigrún sagði að marg­ir virt­ust trúa þeirri kenn­ingu að Glitn­ir hefði fallið vegna þess að Lehm­an Brot­h­ers hefði kom­ist í þrot. Þetta væri ekki rétt. Glitn­ir og Lehm­an Brot­h­ers hefðu orðið gjaldþrota af sömu ástæðu. Báðir bank­arn­ir hefðu verið fjár­magnaðir með lán­um frá evr­ópska Seðlabank­an­um. Bank­inn hefði breytt lána­regl­um sín­um sem leiddi til þess að þeir gátu ekki leng­ur fjár­magnað sig.

Hrósað fyr­ir máls­höfðun

Sigrún hrósaði skila­nefnd Kaupþing fyr­ir að hafa höfðað mál í Bretlandi og látið þannig reyna á rétta­stöðu sína gagn­vart bresk­um stjórn­völd­um. Þó að málið hefði tap­ast hefði þetta haft þær já­kvæðu af­leiðing­ar að mikið af upp­lýs­ing­um hefði komið fram í dags­ljósið. Hún sagði það mik­il von­brigði að skila­nefnd Lands­bank­ans skuli ekki hafa höfðað mál í Bretlandi. Með mála­rekstr­in­um hefði fólk fengið mikið af upp­lýs­ing­um um aðdrag­anda af falli bank­ans og hvernig staðið hefði verið að rekstri hans.

Sigrún sagði að all­ir bank­ar hefðu boðið upp á af­l­andsþjón­ustu af ein­hverju tagi. Íslensku bank­arn­ir hefðu hins veg­ar gengið miklu lengra en bank­ar í ná­granna­lönd­um okk­ar, að því leyti að ótrú­lega mörg­um hefði verið boðið að taka þátt í þess­um viðskipt­um. Hún sagði að þessi viðskipti hefðu byggst upp á því að svíkja und­an skatti. Ef ætl­un­in hefði verið að greiða skatt af pen­ing­un­um og greiða þær háu þókn­an­ir sem bank­arn­ir hefðu tekið fyr­ir þjón­ust­una hefði viðskipta­vin­ur­inn tapað.

Sigrún sagði að ein­hver hefði sagt að Lúx­em­borg væru dyrn­ar að öll­um þess­um viðskipt­um. Sann­leik­ur­inn væri hins veg­ar sá að í Lúx­em­borg væru aðeins fyrstu dyr af mörg­um. Þar fyr­ir inn­an væru aðrar dyr sem leiddu menn til Tor­tóla, Panama, London og víðar.

Galið 

Sigrún sagðist eitt sinn hafa spurt er­lend­an banka­mann hvort að í hans heimalandi hefðu bank­ar heim­ild til að lána út á kaup á hluta­bréf­um í sjálf­um sér. Hann hefði svarað að hann væri ekki al­veg viss hvort þetta væri lög­legt, en þetta væri hins veg­ar svo galið að eng­um dytti í hug að gera þetta. Hér á landi hefði þetta þótt sjálf­sagður hlut­ur.

Sigrún sagði að með einka­væðingu bank­anna hefðu marg­ir von­ast eft­ir að það myndi losna um göm­ul sam­bönd sem hefðu byggst á flokkstengsl­um og kunn­ings­skap. Þetta hefði ekki gerst. Sömu vinnu­brögð hefðu verið stunduð. Venju­leg­ir banka­menn sem hún hefði rætt við hefðu sagt sér að bæði fyr­ir og eft­ir einka­væðingu hefði verið farið fram­hjá lána­nefnd­um við af­greiðslu lána. Eini mun­ur­inn væri að eft­ir einka­væðing­una hefðu töl­urn­ar verið orðnar svo miklu hærri.

Sigrún sagði að of­ur­lán bank­anna til eig­enda og valdra viðskipta­vina hefðu op­in­berað hversu eitrað þetta kunn­ingjaþjóðfé­lag væri. Bank­arn­ir hefðu í reynd verið tví­skipt­ir, ann­ars veg­ar hefði völd­um mönn­um og fyr­ir­tækj­um verið lánað gríðarlega háar upp­hæðir og alltaf hefði verið hægt að fá meira að láni og hins veg­ar væru hinir sem fengu lán sem byggðust á venju­leg­um bankaviðskipt­um. Bank­arn­ir hefðu meira að segja kynnt nýja afurð, áhættu­laus lán.

Einka­væðing byggðist á einka­vinavæðingu

Sigrún sagðist hafa velt fyr­ir sér hvort einka­væðing bank­anna hefði verið mis­tök. Sjálf sagðist hún vera á móti því að ríkið ætti banka, en það leiddi óhjá­kvæmi­lega til póli­tískra af­skipta af bönk­un­um. Einka­væðing bank­anna á Íslandi hefði hins veg­ar byggst á einka­vinavæðingu. Mik­il reynsla væri til er­lend­is á einka­væðingu banka en ekki virt­ist hafa verið reynt að nýta sér hana.

Sigrún minnt­ist á frétt sem Viðskipta­blaðinu var með fyr­ir skömmu, en þar upp­lýsti Þórður Friðjóns­son að árið 1998 hefði SEB, þriðji stærsti banki Svíþjóðar, haft mik­inn áhuga á því að kaupa hlut í Lands­bank­an­um. Hætt var við kaup­in. Þetta hefði rifjað upp fyr­ir sér að á þess­um tíma hefði hún tekið viðtal fyr­ir Morg­un­blaðið við banka­stjóra bank­ans sem hefði lýst áhuga á að fjár­festa á Íslandi. Hún sagðist í fram­hald­inu hafa heyrt það sjón­ar­mið hjá stjórn­end­um blaðsins að það væri ekki tíma­bært að hleypa út­lend­ing­um að eign­ar­haldi banka á Íslandi.

„Það hefði verið frá­bært ein­mitt á þess­um tíma að fá út­lend­inga inn í ís­lenskt banka­kerfi," sagði Sigrún. Hún sagðist ekki vera þeirr­ar skoðunar að allt væri gott í út­lönd­um, en reynsl­an hefði sýnt að þeir sem eignuðust ís­lensku bank­ana hefði sár­lega skort þekk­ingu og reynslu á banka­rekstri.

Sigrún sagði að rann­sókn á banka­hrun­inu á Íslandi gæti ekki farið fram án þekk­ing­ar frá út­lönd­um. Hún hvatti alla þá sem byggju yfir upp­lýs­ing­um um það sem gerst hefði bæði fyr­ir og eft­ir hrun að koma þeim upp­lýs­ing­um til skila. Menn ættu ekki að fá að „drullu­m­alla" í friði. Framund­an væru átök því að marg­ir vildu halda í óbreytt ástand. Hún minnti að lok­um á að kunn­ingjaþjóðfé­lagið gæfi ekki eft­ir bar­áttu­laust.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert