Hafa hreðjatök á bönkunum

Sigrún Davíðsdóttir flutti erindi á fjölmennum fundi hjá Sagnfræðingafélag Íslands …
Sigrún Davíðsdóttir flutti erindi á fjölmennum fundi hjá Sagnfræðingafélag Íslands í dag. mbl.is

Þeir sem fengu mest lánað hafa hreðjatök á bönkunum. Framundan eru mikil átök sem m.a. snúast um hvort tekst að koma á breytingum í íslensku fjármálalífi. Þetta sagði Sigrún Davíðsdóttir blaðamaður í fyrirlestri sem hún hélt á mjög fjölmennum fundi hjá Sagnfræðingafélagsi Íslands í dag.

Sigrún kallaði fyrirlesturinn „Kreppan og kunningjaþjóðfélagið". Sigrún hefur fylgst með íslensku útrásinni og skrifað um hana bæði fyrir og eftir að bankarnir féllu. Hún hefur búið í Kaupmannahöfn og London síðustu ár.

Sigrún sagði að bankarnir hefðu verið reknir með þeim hætti að þeir hefðu skekkt öll viðmið í samfélaginu. Menn sem hefðu verið að reka fyrirtæki með þokkalegum hagnaði hefðu talið að þeir væru að gera einhver mistök þegar þeir hefðu borið sínar hagnaðartölur saman við hagnað bankanna. Í öðru lagi hefðu launagreiðslur bankanna skekkt allt launakerfið og eitrað út frá sér.  Í þriðja lagi hefðu bankarnir skekkt öll hlutföll með stefnu sinni í lánamálum. Þeir sem hefðu tekið mest að láni hjá bönkunum hefðu verið komnir í þá stöðu að geta horft niður á bankana. „Áhrif þessara skekktu hlutfalla gætir enn í dag. Þeir sem náðu lengst hafa hreðjatök á bönkunum."

Höguðu sér ekki eins og hugsandi verur

Sigrún talaði við útlending sem störfuðu hjá fyrirtækjum sem Íslendingar eignuðust í Bretlandi og Danmörku þegar útrásarvíkingarnir voru að gera strandhögg í þessum löndum. Hún sagði að þeir hefðu í samtölum við sig sagt að Íslendingarnir væru duglegir en höguðu sér kannski alveg eins og hugsandi verur. Þeir hefðu haft áhyggjur af krosseignatengslum íslensku fyrirtækjanna og að stjórnendur þeirra færu ekki fram með nægilegri fyrirhyggju.

Sigrún sagði að sér væru minnisstæð ummæli sem einn af forystumönnum í íslensku útrásinni lét falla í samtali við sig árið 2005. Hann hefði sagt að ef einu af íslensku fyrirtækjunum yrði alvarlega á í messunni myndi það hafa áhrif á alla í íslensku útrásina. A.m.k. sumir hefðu því gerst sér vel grein fyrir áhættunni.

Sigrún sagði að margir virtust trúa þeirri kenningu að Glitnir hefði fallið vegna þess að Lehman Brothers hefði komist í þrot. Þetta væri ekki rétt. Glitnir og Lehman Brothers hefðu orðið gjaldþrota af sömu ástæðu. Báðir bankarnir hefðu verið fjármagnaðir með lánum frá evrópska Seðlabankanum. Bankinn hefði breytt lánareglum sínum sem leiddi til þess að þeir gátu ekki lengur fjármagnað sig.

Hrósað fyrir málshöfðun

Sigrún hrósaði skilanefnd Kaupþing fyrir að hafa höfðað mál í Bretlandi og látið þannig reyna á réttastöðu sína gagnvart breskum stjórnvöldum. Þó að málið hefði tapast hefði þetta haft þær jákvæðu afleiðingar að mikið af upplýsingum hefði komið fram í dagsljósið. Hún sagði það mikil vonbrigði að skilanefnd Landsbankans skuli ekki hafa höfðað mál í Bretlandi. Með málarekstrinum hefði fólk fengið mikið af upplýsingum um aðdraganda af falli bankans og hvernig staðið hefði verið að rekstri hans.

Sigrún sagði að allir bankar hefðu boðið upp á aflandsþjónustu af einhverju tagi. Íslensku bankarnir hefðu hins vegar gengið miklu lengra en bankar í nágrannalöndum okkar, að því leyti að ótrúlega mörgum hefði verið boðið að taka þátt í þessum viðskiptum. Hún sagði að þessi viðskipti hefðu byggst upp á því að svíkja undan skatti. Ef ætlunin hefði verið að greiða skatt af peningunum og greiða þær háu þóknanir sem bankarnir hefðu tekið fyrir þjónustuna hefði viðskiptavinurinn tapað.

Sigrún sagði að einhver hefði sagt að Lúxemborg væru dyrnar að öllum þessum viðskiptum. Sannleikurinn væri hins vegar sá að í Lúxemborg væru aðeins fyrstu dyr af mörgum. Þar fyrir innan væru aðrar dyr sem leiddu menn til Tortóla, Panama, London og víðar.

Galið 

Sigrún sagðist eitt sinn hafa spurt erlendan bankamann hvort að í hans heimalandi hefðu bankar heimild til að lána út á kaup á hlutabréfum í sjálfum sér. Hann hefði svarað að hann væri ekki alveg viss hvort þetta væri löglegt, en þetta væri hins vegar svo galið að engum dytti í hug að gera þetta. Hér á landi hefði þetta þótt sjálfsagður hlutur.

Sigrún sagði að með einkavæðingu bankanna hefðu margir vonast eftir að það myndi losna um gömul sambönd sem hefðu byggst á flokkstengslum og kunningsskap. Þetta hefði ekki gerst. Sömu vinnubrögð hefðu verið stunduð. Venjulegir bankamenn sem hún hefði rætt við hefðu sagt sér að bæði fyrir og eftir einkavæðingu hefði verið farið framhjá lánanefndum við afgreiðslu lána. Eini munurinn væri að eftir einkavæðinguna hefðu tölurnar verið orðnar svo miklu hærri.

Sigrún sagði að ofurlán bankanna til eigenda og valdra viðskiptavina hefðu opinberað hversu eitrað þetta kunningjaþjóðfélag væri. Bankarnir hefðu í reynd verið tvískiptir, annars vegar hefði völdum mönnum og fyrirtækjum verið lánað gríðarlega háar upphæðir og alltaf hefði verið hægt að fá meira að láni og hins vegar væru hinir sem fengu lán sem byggðust á venjulegum bankaviðskiptum. Bankarnir hefðu meira að segja kynnt nýja afurð, áhættulaus lán.

Einkavæðing byggðist á einkavinavæðingu

Sigrún sagðist hafa velt fyrir sér hvort einkavæðing bankanna hefði verið mistök. Sjálf sagðist hún vera á móti því að ríkið ætti banka, en það leiddi óhjákvæmilega til pólitískra afskipta af bönkunum. Einkavæðing bankanna á Íslandi hefði hins vegar byggst á einkavinavæðingu. Mikil reynsla væri til erlendis á einkavæðingu banka en ekki virtist hafa verið reynt að nýta sér hana.

Sigrún minntist á frétt sem Viðskiptablaðinu var með fyrir skömmu, en þar upplýsti Þórður Friðjónsson að árið 1998 hefði SEB, þriðji stærsti banki Svíþjóðar, haft mikinn áhuga á því að kaupa hlut í Landsbankanum. Hætt var við kaupin. Þetta hefði rifjað upp fyrir sér að á þessum tíma hefði hún tekið viðtal fyrir Morgunblaðið við bankastjóra bankans sem hefði lýst áhuga á að fjárfesta á Íslandi. Hún sagðist í framhaldinu hafa heyrt það sjónarmið hjá stjórnendum blaðsins að það væri ekki tímabært að hleypa útlendingum að eignarhaldi banka á Íslandi.

„Það hefði verið frábært einmitt á þessum tíma að fá útlendinga inn í íslenskt bankakerfi," sagði Sigrún. Hún sagðist ekki vera þeirrar skoðunar að allt væri gott í útlöndum, en reynslan hefði sýnt að þeir sem eignuðust íslensku bankana hefði sárlega skort þekkingu og reynslu á bankarekstri.

Sigrún sagði að rannsókn á bankahruninu á Íslandi gæti ekki farið fram án þekkingar frá útlöndum. Hún hvatti alla þá sem byggju yfir upplýsingum um það sem gerst hefði bæði fyrir og eftir hrun að koma þeim upplýsingum til skila. Menn ættu ekki að fá að „drullumalla" í friði. Framundan væru átök því að margir vildu halda í óbreytt ástand. Hún minnti að lokum á að kunningjaþjóðfélagið gæfi ekki eftir baráttulaust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert