Það er ekki á hverjum degi sem hús er flutt í heilu lagi landshorna á milli, en í gær bættist nýtt hús við á Hólmavík. Það var smíðað í Þorlákshöfn og kom til Hólmavíkur í gærmorgun. „Þetta er komið í höfn,“ segir eigandi hússins í samtali við mbl.is.
„Ég er frá Hólmavík, og þetta er paradís á jörðu fyrir mig,“ segir húseigandinn Jóhanna Björg Guðmundsdóttir. Hún hefur búið lengi ásamt fjölskyldu sinni erlendis en sneri aftur til Íslands fyrir um ári. Hún segist hafa fengið Trésmiðju Heimis í Þorlákshöfn til að smíða húsið. „Þeir unnu þetta frábæra verk og komu því á staðinn,“ segir Jóhanna.
Lagt var af stað með húsið norður fyrir helgi en það varð að bíða í Hvalfirði á meðan vind lægði. Ferðin hófst því að nýju seint á sunnudagskvöld og um kl. 6 í gærmorgun var húsið komið á áfangastað.
Jóhanna tekur hins vegar fram að þegar þangað hafi verið komið hafi flutningurinn gengið nokkuð skrautlega fyrir sig. Það hafi m.a. orðið að skáskjóta því á milli húsa, taka niður einn ljósastaur og beita ýmsum ráðum til að koma því örugglega á sinn stað. „Þetta gekk allt upp,“ segir Jóhanna að lokum.