Landsnet hefur sent frá sér yfirlýsingu varðandi umsögn sína til Skipulagstofnunar um Suðvesturlínur, þar sem áréttað er að þær muni geta annað aflþörf stækkaðs álvers í Helguvík, ef af verður sem og öðrum áformum um uppbyggingu iðnaðar og orkuöflun á svæðinu.
Í yfirlýsingunni segir:
„Fram kom í umsögn Landsnets að Norðurál hefði hafið framkvæmdir við allt að 360.000 tonna álver í Helguvík og sé aflþörf þess allt að 435MW en hið rétta er að Norðurál hefur hafið framkvæmdir við allt að 250.000 tonna álver í Helguvík með allt að 435 MW aflþörf. Norðurál stefnir hins vegar að stækkun álversins í 360.000 tonn og nemur heildaraflþörf álvers að þeirri stærð 625 MW. “
Í yfirlýsingunni biðst Landsnet velvirðingar á misræminu og tekur fram að bæði Skipulagsstofnun og Umhverfisráðuneyti hafi fengið senda leiðréttingu á misræmi í umsögn. Þá ítrekar Landsnet um leið að misræmið hafi ekki áhrif á mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlína né niðurstöðu umsagnar fyrirtækisins til Skipulagsstofnunar.