Ráðstöfunartekjur jukust um 14,9% milli ára

Ráðstöfunartekjur heimila eru taldar, samkvæmt endurskoðuðu mati vaxtatekna, hafa aukist um 14,9% á árinu 2008 frá fyrra ári í krónum talið. 

Hagstofan hefur nú endurskoðað það mat á ráðstöfunartekjum heimila 2000-2007 sem birt var  í september. Byggir endurskoðunin á nýjum gögnum um vaxtatekjur af bankainnistæðum einstaklinga á þessu tímabili. Fyrir tekjuárið 2008 var fjármálastofnunum gert skylt í fyrsta sinn að veita skattyfirvöldum upplýsingar um innistæður og vaxtatekjur. Þetta olli því að niðurstöður fyrri ára var ekki unnt að bera saman við niðurstöðuna tekjuárið 2008. Nú hefur verið bætt úr þessu með því að afla sambærilegra gagna fyrir árin 2000-2007. Tölur ársins 2008 breytast ekki en hlutfallstölur yfir þróun ráðstöfunartekna breytast hins vegar.

Vaxtatekjur af bankainnistæðum einstaklinga eru samkvæmt endurmatinu taldar hafa numið rúmum 45 milljörðum króna árið 2007. Í áður birtum tölum var gert ráð fyrir 26 milljarða króna tekjum. Nýtt mat á vaxtatekjum af bankainnistæðum er unnið út frá upplýsingum um innheimtan fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum yfir umrætt tímabil.

Ráðstöfunartekjur heimila eru taldar, samkvæmt endurskoðuðu mati vaxtatekna, hafa aukist um 14,9% á árinu 2008 frá fyrra ári í krónum talið. Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 12,1% milli ára og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann dróst saman um 0,3%. Heildartekjur heimilageirans eru taldar hafa aukist um 12,6% á verðlagi hvors árs og heildareigna- og tilfærsluútgjöld um 9%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka