Borgarstjórn Reykjavíkur hefur samþykkt tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um að Reykjavíkurborg sæki um tilnefningu sem Græna borgin í Evrópu (European Green Capital) árið 2012 eða 2013. Evrópusambandið útnefnir árlega Grænu borgina í Evrópu í þeim tilgangi að vekja athygli á mikilvægi umhverfismála í borgum.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, telur að Reykjavíkurborg geti haft alla burði til að hljóta útnefninguna. „Ötullega hefur verið unnið að umhverfismálum í borginni undanfarin ár og á nýafstöðnu Hugmyndaþingi mátti glögglega sjá mikinn áhuga íbúa á þessum málaflokki,“ segir hún. „Reykjavíkurborg hefur verið að stíga metnaðarfull græn skref á þessu kjörtímabili, sameinað umhverfis- og samgöngusvið og nýlega samþykkt loftlags- og loftgæðastefnu fyrst íslenskra sveitarfélaga. Þá eru unnið að fleiri spennandi verkefnum svo sem hjólreiðaáætlun og rafbílavæðingu,“ að því er haft er eftir henni í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.