Erlendar skuldir Íslands gætu náð um 310% af landsframleiðslu á þessu ári. Yfir tuttugu prósent stærstu fyrirtækja eru gjaldþrota eða í greiðslustöðvun. Fimmta hvert heimili með neikvæða eiginfjárstöðu og hlutfallið hækkar haldi húsnæðisverð áfram að lækka. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti í gær skýrslu um efnahagsáætlun Íslands.
Þá er í skýrslunni komið inn á ýmsa áhættuþætti. Einna stærstur er bakreikningur sem komið getur til ef neyðarlögunum verður hnekkt fyrir dómi. Talið er að um 620 milljarðar króna geti fallið á íslenska ríkið fari svo. Það myndi auka skuldir um 40% af landsframleiðslu.
Hvað bankana varðar er talið að þeir þurfi að endurskoða og jafnvel afskrifa tvö af hverjum þremur lánum íslenskra fyrirtækja. Gjaldþrotum hafi enda fjölgað verulega á árinu eða um 20% frá fyrra ári.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir ljóst að óvissa ríki um marga þætti og framtíðarinnar sé að dæma um það hvernig tekist hafi til. „Það ræðst allt af því hvort þarna er nægilegt borð fyrir báru til að mæta þessum afskriftum, s.s. í matinu á lánasöfnunum.“
Lánasöfn nýju bankanna eru einnig til umfjöllunar og fá vægast sagt slæma einkunn, en talið er að afskrifa þurfi allt að 60-70% prósent sumra flokka útlána. Þrátt fyrir þetta telja Steingrímur og Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra að bankarnir hafi verið nægilega vel fjármagnaðir.
„Þeir byrjuðu með umtalsvert hærra eiginfjárhlutfall en er alþjóðlegt lágmark og það endurspeglar þessa óvissu,“ segir Gylfi. Í skýrslu AGS er nefnt að margir Íslendingar telji skyndilausn á efnahagsvandanum felast í upptöku evru. Ríkisstjórnin viðurkenni þó að yrði sú leið farin tæki hún mörg ár í framkvæmd.