Segjast hafa gert allt til að halda fyrirtækinu á floti

mbl.is/hag

Vegna fréttar á mbl.is í dag, um mál fyrirtækisins Festi ehf. fyrirsögninni ,,Segja bankann keyra lífvænlegt fyrirtæki í þrot“ vill Landsbankinn taka fram:
 
Í fréttinni segir lögmaður fyrirtækisins bankann keyra lífvænlegt fyrirtæki í þrot, enda séu forsendur fyrir því að leggja fram gjaldþrotabeiðni brostnar eftir að lög um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og efnahags- og gjaldeyrishrunsins voru samþykkt á Alþingi.
 
Þetta er misskilningur af hálfu lögmannsins.
 
Málið á sér miklu lengri sögu en látið er í veðri vaka. Nýsett lög hafa ekkert með það að gera enda eru erfiðleikar Festi ótengdir bankahruninu að langstærstum hluta. Lögin taka að auki ekkert á því hvernig á að fara með mál eins og þetta og bankinn hafnar því að gjörðir hans gangi sérstaklega gegn þeim, anda þeirra eða vilja stjórnvalda.
 
Landsbankinn hefur um langa hríð gert ítrekaðar tilraunir til að aðstoða eigendur Festi ehf. við að endurfjármagna félagið og skjóta stoðum undir reksturinn, m.a. með því að fá inn nýja hluthafa og afskrifa stóran hluta skulda. Það hefur ævinlega strandað á kröfu núverandi eigenda um að þeir fái greitt hátt verð fyrir sölu á hlutafé. Bankinn telur að auki, þvert á það sem lögmaðurinn heldur fram,  að hagsmunir birgja og starfsmanna hafi verið fyrir borð bornir af hálfu stjórnenda fyrirtækisins.
 
Bankinn hefur afar takmarkað svigrúm til að fjalla um málið opinberlega, en leyfir sér  að fullyrða að allt hafi verið gert sem hægt var til að halda fyrirtækinu á floti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert