„ÞAÐ eru mjög skiptar skoðanir um þetta frumvarp, bæði innan ríkisstjórnarflokkanna og annarra flokka. Sjálfur tel ég ekki að það verði samþykkt á þessu þingi,“ segir Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, um stjórnarfrumvarp um persónukjör.
Frumvarpið var tekið til fyrstu umræðu í gær og rætt langt fram eftir kvöldi.
Í umsögn stjórnar VG um frumvarpið segir: „Frumvarpið um persónukjör er ófullkomið og þarf mun betri umfjöllun áður en það er tilbúið til afgreiðslu,“ en í stjórn VG eru m.a. ráðherrarnir Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, og Katrín Jakobsdóttir varaformaður. „Ég hef enga trú á að frumvarpið verði að lögum,“ segir Atli.