Nýtt upphaf markað

Skrifað undir viljayfirlýsinguna í dag.
Skrifað undir viljayfirlýsinguna í dag. mbl.is/Golli

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisrisráðherra, sagði að með viljayfirlýsingu, sem skrifað var undir í dag um byggingu nýs Landspítala væri markað nýtt upphaf að þeim framkvæmdum sem framundan eru.

Sagði Jóhanna að ef lífeyrissjóðirnir muni fjármagna verkefnið sé verið að nota söfnunarfé íslensks launafólks til að fjármagna samfélagslegt verkefni og þeim fjármunum væri vel varið.

Fulltrúar tuttugu lífeyrissjóða, og ráðherrar skrifuðu í dag viljayfirlýsingu um að hefja samstarf við undirbúning að fjármögnun, útboði og framkvæmdum við nýbyggingu Landspítala við Hringbraut. Gert er ráð fyrir því að sjóðirnir komi að fjármögnun verkefnisins svo framarlega sem arðsemi og áhætta verði viðunandi.  

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, eftir undirritunina að þetta væri mikill gleðidagur. Fram kom hjá honum, að ef ríkið hefði sjálft farið út í að fjármagna byggingu spítalans hefði það væntanlega orðið einfaldara og hagkvæmara en aðstæður leyfðu það ekki í dag.

Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, sagði lífeyrissjóðina líta á Landspítalamálið fyrst og fremst sem samfélagslegt verkefni að uppfylltum skilyrðum um viðunandi arðsemi. Verkefnið henti lífeyrissjóðunum vel því það sé til langs tíma og fjárfestingin dreifist á mörg ár.

Arnar sagði að þeir fjármunir, sem kunni að verða lánaðir verði að skila viðunandi ávöxtun og á það muni reyna í samningum við stjórnvöld á næstunni. 

Hann gat þess einnig að lífeyrissjóðirnir kæmu hugsanlega að fleiri framkvæmdum og þeir ætluðu á næstunni að stofna sjálfstætt fjárfestingarfélag eða framtakssjóð. Ættu þeir í viðræðum við stjórnvöld um að lána fjármuni til sjálfbærra verkefna í samgöngu og orkumálum.

Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, sagðist í morgun hafa skipað nýja verkefnisstjórn, sem á að vinna að undirbúningi verkefnsisins í samvinnu við lífeyrissjóði og skipulagssvið Reykjavíkurborgar. Formaður verkefnisstjórnarinnar er Gunnar Svavarsson, fyrrverandi alþingismaður.

Fulltrúar stjórnvalda og lífeyrissjóða undirrituðu viljayfirlýsinguna í dag.
Fulltrúar stjórnvalda og lífeyrissjóða undirrituðu viljayfirlýsinguna í dag. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert