Reynt var að jafna ágreining um áform stjórnvalda í skattamálum á fundi forsvarsmanna samtaka á vinnumarkaði og ríkisstjórnarinnar í dag. „Ég bind miklar vonir við að menn nái saman um að stemma þetta umfang [skattanna] af þannig að það verði ekki gengið lengra en góðu hófi gegnir,“ sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, eftir fundinn.
Það eru fyrst og fremst áform stjórnvalda í skattamálum, sérstaklega varðandi nýja orku-, auðlinda- og umhverfisskatta sem ágreiningur hefur verið um vegna framgangs stöðugleikasáttmálans á milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Farið var yfir stöðu þessara mála á fundinum í dag.
Ákveðið var á fundinum að sett verði í gang ákveðin vinna við að fara yfir þessi mál. Gylfi segir að engin útfærsla liggi enn fyrir.
ASÍ og Samtök atvinnulífsins hafa haldið því fram að umfang aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum með áformuðum skattahækkunum gangi mun lengra en samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn gerir ráð fyrir. Þar muni um 23 milljörðum kr. á árinu 2010 sem áform séu um að sækja með skattahækkunum.
„Ég treysti því að við munum ná saman um að draga úr aðhaldsstigi fjárlaga,“ segir Gylfi.