Maður sem grunaður er um að hafa brotist inn í Sjónvarpsmiðstöðina í Síðumúla í nótt, var handtekinn í verslun 10-11 í morgun. Lögregla flutti manninn á slysavarðstofu þar sem hann var slasaður og honum blæddi. Ekki er búið að yfirheyra manninn og játning liggur ekki fyrir.
Hreinn Erlendsson, eigandi Sjónvarpsmiðstöðvarinnar, segir að öryggismyndavélar hafi náð innbrotinu öllu á mynd. En maðurinn huldi andlit sitt fyrir neðan nef. „Hann hendir stórri steinhellu inn um gluggann og veður svo inn og sker sig mikið á glerinu. Við sáum það hér í morgun að blóð hafði spýst upp á veggina." Hreinn segir að þetta hafi augljóslega ekki verið neitt sár sem hægt var að leggja plástur yfir. Það hafi verið blóð út um allt við gluggann.
„Við erum þarna með þrjú stór sjónvarpstæki á festingu sem nær frá gólfi upp í loft. Hann réðst á þau og náði að rífa eitt tæki af eftir rosalegan hamagang og læti. Svo skutlaði hann því hálfu út um gluggann og velti sér yfir það til að komast út," segir Hreinn. Hann telur óhugsandi að tækið hafi verið nothæft eftir meðferðina.
Rúðan sem innbrotsþjófurinn braut er nokkrir fermetrar að stærð, en nokkuð hefur verið um innbrot í verslunina, svo að á lagernum eru alltaf til tvær aukarúður. Nú er búið að skipta um rúðu að sögn Hreins.
Hann segir að ekki sé meira um innbrot í búðina í kreppunni en áður. ,,Við fáum alltaf þessar heimsóknir yfir dimmustu mánuði ársins. En við höfum líka verið að bæta okkur sjálfir hér og erum komnir með öflugt þjófavarnarkerfi sem fer í gang með sírenum um leið og rúða er brotin. Það er í raun ólíft hér inni eftir að það fer í gang."