Ragna Árnadóttir dóms- og mannréttindaráðherra sagði á Alþingi í kvöld það koma til greina að taka upp tímabundna vegabréfsskoðun inn í landið. Þetta kom fram í svari hennar við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokks um gerð samninga um flutning dæmdra manna.
Í máli Sivjar kom fram að að fimmti hver fangi er útlendur og hlutfallið jafnvel ívið hærra á Litla Hrauni. Flestir tala aðeins eigið tungumál sem veldur erfiðleikum í samskiptum.
Ragna sagði umhugsunarefni að hér skuli vera þessi fjöldi útlendra brotamanna. Því væri spurning hvort ástandið hér á landi gæfi tilefni til þess að huga að fleiri leiðum til þess að stemma stigu við brotamönnunum þannig að þeir hefðu ekki tækifæri til að koma hingað og fremja afbrot. Í því skyni mætti kanna hvort það væri lagalegur og hagnýtur möguleiki á því að fara í aðgerðir eins og tímabundið vegabréfaeftirlit hér á landi. Það þyrfti að skoða.
Siv benti á að fangelsin hér væru yfirfull, og spurði hvernig væri hægt væri að liðka fyrir að dæmdir menn gætu afplánað í sínu heimalandi. Hún vísaði í Evrópuráðssamning um flutning dæmdra manna til heimalands síns.
Sagði Ragna ástæðu til að huga að því að gera betur í þessum málum en slíkt ferli tæki tíma, sérstaklega þegar fangar væru mótfallnir því að vera sendir til afplánunar í sínu heimalandi.