Á enn von á svörum

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir Ómar Óskarsson

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagðist á Alþingi í dag enn eiga von á svari frá forsætisráðherrum Bretlands og Hollands við bréfum sendum í lok ágúst. Formaður Framsóknarflokks sagði með ólíkindum að forsætisráðherra væri ekki virtur viðlits í þessari milliríkjadeilu, en héldi engu að síður uppi málstað þjóðanna.

Jóhanna brást illa við þeim ummælum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokks, mótmælti þeim og sagðist alls ekki hafa haldið uppi málstað Hollendinga og Breta. Hún hefði til að mynda gagnrýnt málsmeðferðina á opinberum vettvangi við litla ánægju kollega sinna.

Jóhanna ritaði Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, og Jan Peter Balkenende, forsætisráðherra Hollands, samhljóðandi bréf 28. ágúst sl. Í niðurlagi þess segist Jóhanna tilbúin að koma til fundar við kollega sína eins fljótt og auðið er verði það talið gagnlegt.

Bréfið var sent í kjölfar þess að Alþingi samþykkti með fyrirvörum ríkisábyrgð vegna lánasamninganna um Icesave. Í því eru forsætisráðherrarnir upplýstir um samþykkt Alþingis, og einnig að umræðan í þinginu hafi verið langvinn og eldfim, enda um að ræða stærstu fjárskuldbindingu þjóðarinnar hingað til, sem geti haft langvarandi efnahagsleg áhrif sökum fjölmargra óvissuþátta.

Jóhanna segir ennfremur að Ísland hafi aldrei svikist um þegar fjárhagslegar skuldbindingar eru annars vegar og niðurstaða Alþingis miði að því að Icesave-skuldirnar verði greiddar.

Jóhanna segist treysta því að ráðherrarnir hafi skilning á þörf Íslands fyrir tryggingu í jafnumfangsmiklu máli og hún vonist til að ríkisstjórnir þeirra sýni sanngirni við yfirferð niðurstöðu Alþingis. „Leyfðu mér að stinga upp á því að við, sem forsætisráðherrar, tökum málið upp og í sameiningu hefjum nýja tíð í tvíhliða sambandi. Ef það er talið gagnlegt er ég reiðubúin að koma til fundar við þig,“ segir í bréfi Jóhönnu til forsætisráðherrans breska og þess hollenska.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert