Allra hagur að íslensk garðyrkja dafni

UVG vilja að verð á raforku til garðyrkjubænda verði lækkað.
UVG vilja að verð á raforku til garðyrkjubænda verði lækkað. Ásdís Ásgeirsdóttir

Stjórn Unga vinstri grænna hefur skorað á stjórnvöld að bregðast strax við alvarlegri stöðu íslenskra garðyrkjubænda, þar sem ljóst sé að verði ekkert að gert muni margir garðyrkjubændur sjá sig knúna til að hætta starfsemi.

„Það er allra hagur að íslensk garðyrkja dafni sem best,“ segir í ályktuninni frá UVG. „Innlend ræktun grænmetis og blóma skapar fjölda starfa, dregur úr óþörfu útstreymi gjaldeyris og hefur jákvæð áhrif á umhverfið, með því að minnka mengun af völdum millilandaflutninga.

Þá er afar brýnt að matvælaöryggi þjóðarinnar sé tryggt þannig að viðurværi þjóðarinnar sé ekki háð innflutningi. Það sýndi sig við hrun fjármálakerfisins síðastliðið haust að raunveruleg hætta er á því að matvælaskortur verði í landinu við sérstakar aðstæður. Síðast en ekki síst er hægt að bjóða neytendum upp á ferskari matjurtir séu þær framleiddar hér á landi.

Stjórn Ungra vinstri grænna telur afar brýnt að lækka verð á raforku til garðyrkjubænda. Það er löngu orðið tímabært að breyta forgangsröðun í orkumálum þjóðarinnar. Í stað þess að ráðstafa nær allri raforku sem hér er unnin til stóriðju og veita álverum mikinn afslátt af raforkuverði verður að líta til fjölbreyttari þátta við atvinnuuppbyggingu, þar sem sjónarmið sjálfbærrar þróunar eru höfð að leiðarljósi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert