Bað um far til Albany

Linda Björk Magnúsdóttir. Lögreglan í New York dreifði þessari mynd …
Linda Björk Magnúsdóttir. Lögreglan í New York dreifði þessari mynd af henni í morgun.

Linda Björk Magnúsdóttir, sem var eftirlýst í New York ríki í Bandaríkjunum í morgun eftir að hún flúði úr dómhúsi, var handtekin í verslun við hraðbraut í bænum Plattsburgh eftir að hjón sem þar voru á ferð þekktu hana af mynd sem lögregla hafði birt.

Hjónin Timothy og Pamela Whalen segja við fréttavef blaðsins The Press Republican, að þau hafi farið inn í verslunina þegar þau voru á leið heim eftir að hafa unnið á næturvakt við skúringar. Þá hafi kona komið til þeirra og beðið þau umf far.

„Hún kom til okkar og spurði hvert við værum að fara," segir Timothy við blaðið. „Við sögðumst vera á leið heim og þá spurði hún hvort við værum á leið til Albany. Við svöruðum neitandi."

Konan sagði síðan að bíllinn hennar hefði bilað, hún hefði lent í rifrildi við eiginmanninn og væri á leið út úr bænum. „En við þekktum hana bæði," sagði Pamela og bætti við að þau hjón hefðu séð fréttir um leitina sem gerð var að Lindu Björk og séð mynd af henni.  

Þau sögðu að konan hefði verið afar taugaóstyrk. Þegar þau hjónin komu aftur í bíl sinn hringdu þau í lögregluna og óku síðan á brott. Lögreglumenn komu síðan í verslunina og þá var Linda Björk þar enn og gaf sig fram.

Linda Björk var upphaflega handtekin þegar hún reyndi að komast ólöglega yfir til Bandaríkjanna frá Kanada þar sem hún hefur búið undanfarna mánuði. Unnisti hennar býr hins vegar í Bandaríkjunum. 

Haft var eftir lögreglustjóra í Plattsburgh, að Linda Björk sé í sýslufangelsi í borginni og ekkert ami að henni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert