Svissneskir fjölmiðlar segja frá því að Íslendingur hafi fengið milljóna króna greiðslukortareikning eftir nokkurra klukkustunda dvöl í rauða hverfinu í Zürich. Málið kom til kasta lögreglu og dómstóla sem felldu í vikunni dóm og vísuðu bótakröfu Íslendingsins frá en dæmdu eiganda skemmtistaðar fyrir ýmis brot.
Fram kemur á svissneska fréttavefnum 20 Minuten Online, að um hafi verið að ræða fulltrúa Knattspyrnusambands Íslands, sem hafi m.a. notað greiðslukort sambandsins. Knattspyrnusambandið staðfesti við mbl.is í dag, að starfsmaður þess hefði fyrir 5 árum lent í því að teknar voru jafnvirði 3,5 milljóna króna á þáverandi gengi út af tveimur kreditkortum sem hann var með, annars vegar af persónulegu korti hans og hins vegar af kreditkorti í eigu Knattspyrnusambands Íslands án hans samþykkis.
KSÍ hafi hins vegar ekki beðið neinn skaða af málinu og starfsmaðurinn hafi sótt málið sem persónulegt mál enda ljóst að hann hafi orðið fórnarlamb skipulagðrar glæpastarfsemi og hafi þegar fengið bætur frá hluta þeirra aðila.
20 Minuten Online segir, að Íslendingurinn hafi heimsótt nokkra næturklúbba, síðast staðinn Moulin Rouge þar sem kampavínið flóði. Daginn eftir hafi Íslendingurinn uppgötvað að úttektir á kortunum námu 67 þúsund svissneskum frönkum, þar af um 58 þúsund frönkum í Moulin Rouge. 30 þúsund frankar fóru á endasprettinum milli klukkan 4:30 og 6:40. Um er að ræða 8 milljónir króna á núverandi gengi.
Svissneska ákæruvaldið krafðist á fyrir rétti í síðustu viku að Tyrkinn yrði dæmdur í 30 mánaða fangelsi og settur í starfsbann í tvö ár, en nú rekur hann annan klúbb í Zürich. Þá þótti ákæruvaldinu ljóst, að lög hefðu verið brotin á Íslendingnum. Dómarinn sýknaði Tyrkjann hins vegar af ákæru fyrir okur og fjallaði ekki einu sinni um kröfur Íslendingsins um bætur. Sagði dómarinn m.a. að enginn ætti að furða sig á því, eftir freyðandi kampavínspartý í Zürich, að reikningurinn hafi verið vel kryddaður.
Rétturinn hafnaði einnig kröfunni um starfsbann og sektir, en dæmdi klúbbeigandann í 22 mánaða fangelsi fyrir skattsvik, gagnafölsun og ótrygglyndi í rekstri fyrirtækisins.
KSÍ bar ekki skaða af málinu
Knattspyrnusamband Íslands sendi mbl.is eftirfarandi yfirlýsingu þegar spurst var fyrir um málið í dag:
Fyrir um 5 árum síðan var starfsmaður KSÍ, Pálmi Jónsson fjármálastjóri, staddur í Zurich og varð fyrir þeirri ógæfu að óprúttnir aðilar sem þegar hafa verið dæmdir af svissneskum yfirvöldum tóku út af tveimur kreditkortum um 3,5 milljónir króna, annars vegar af persónulegu korti viðkomandi og hins vegar af kreditkorti í eigu Knattspyrnusambands Íslands án hans samþykkis.
Frétt þessa efnis hefur þegar birst í svissneskum fjölmiðlum þar sem umræddir aðilar, eigandi skemmtistaðar og fleiri aðilar, voru dæmdir til refsivistar og enn fleiri viðriðnir málið handteknir.
Starfsmaður Knattspyrnusambandsins var staddur á skemmtistaðnum og af kortunum var tekin umrædd upphæð án hans vitundar og þegar úttektin uppgötvaðist var málið samstundis kært og fylgt eftir hjá svissneskum yfirvöldum.
Viðkomandi starfsmaður sótti málið, fjárhæðin var greidd af starfsmanninum strax til kreditkortafyrirtækisins og bar því Knattspyrnusamband Íslands aldrei neinn fjárhagslegan skaða af málinu. Hefur hann sótt málið sem persónulegt mál enda dagsljóst að viðkomandi er fórnarlamb skipulagðrar glæpastarfsemi og hefur þegar fengið bætur frá hluta þeirra aðila.