Stjórn Heimdallar hvetur forsvarsmenn bankanna til þess að hafa gagnsæi og jafnræði að leiðarljósi við endurskipulagningu fyrirtækja. Þetta á einkum við þegar teknar eru ákvarðanir um framtíðarfyrirkomulag eignarhalds í stórum fyrirtækjum. Þetta kemur fram í ályktun sem félagið hefur sent frá sér.
„Mikilvægt er að ferlið við sölu fyrirtækja verði þannig úr garði gert að allir geti boðið í fyrirtækin og að tryggt sé að hámarksverð fáist.
Útboð er eðlilegasta leiðin til þess að ná þessum markmiðum og mun heppilegri leið en að fyrrverandi eigendur fái fyrirtækin í hendurnar eftir miklar afskriftir skulda og krafna hjá bankanum. Með því að fara leið útboðs er einnig hægt að tryggja önnur markmið, s.s. aukna samkeppni á mikilvægum mörkuðum."