Icesave-skuldabréf hækkað um 80 milljarða á hálfu ári

Pétur Blöndal
Pétur Blöndal mbl.is

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, viðurkenndi á Alþingi í dag að hafa áhyggjur af því bili sem myndast á milli forgangskröfu innlánstryggingasjóðs og Icesave-skuldabréfanna næstu sjö ár. Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir skuldabréfin hafa hækkað um 80 milljarða kr. á hálfu ári.

Pétur sagði að á fundi fjárlaganefndar í gær hafi komið fram hjá skilanefnd Landsbankans, að forgangskrafa innlánstryggingasjóðs og annarra, Breta og Hollendinga, hefði verið fryst í krónum talið 22. apríl sl., samkvæmt lögum frá Alþingi. Vextir og gengishækkanir yrðu eftirstæðar kröfur, þ.e. aldrei greiddar.

Þar sem eignir gamla Landsbankans eru að mestu í erlendum myntum og gengi þeirra hefur hækkað um rúm 8% frá 22. apríl geti eignir hans staðið undir 90% af Icesave kröfunum sem eru fastar í krónutölu.
Hins vegar sé þessi forgangskrafa megineign innlánstryggingasjóðs til þess að mæta þeim skuldabréfum sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að veita ríkisábyrgð á.

Pétur sagði þau skuldabréf gengistryggð og bera ofurvexti, svonefnda Svavarsvexti, eða 5,55%. Þau hafi hækkað um 80 milljarða króna á hálfu ári, þar af um 20 milljarða vegna vaxta á móti eign sem er föst í krónutölu.

Pétur spurði Jóhönnu hvort hún hafi látið meta hvert bilið gæti orðið að sjö árum liðnum.

Jóhanna sagðist hafa af þessu áhyggjur og myndast gæti mikið bil. Hún hefur því látið skoða málið og mun upplýsa þingheim um niðurstöðuna þegar þar að kemur.

Pétur sagði eðlilegt að láta meta slíkt áður en skrifað er undir ríkisábyrgð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert