Lögregla í borginni Plattsburgh í New York ríki gerði mikla leit að íslenskri konu sem flúði úr gæsluvarðhaldi í gær. Konan beið þess að verða leidd fyrir dómara þegar hún flúði. Það gerði hún með því að segjast þurfa að fara á klósettið en flúði þess í stað.
Lögreglan í borginni, ríkinu og í ríkisháskólanum leituðu að konunni, sem er 42 ára gömul. Hún var handtekin af alríkislögreglumönnum sem ólöglegur innflytjandi, samkvæmt fréttatilkynningu, eftir að hafa framið einhvers konar lögbrot þegar hún kom inn í landið, í gegnum landmærin við Kanada.
Konan er ekki talin hættuleg á neinn hátt, en lögregla hefur gefið út lýsingu á henni vegna leitarinnar. Greint er frá þessu á fréttavefnum PressRepublican.com
Lögreglan lokaði götum í kringum stjórnarbyggingar í borginni og notaði þyrlu til að leita, en þyrlan er í eigu heimavarnarráðuneytisins. Leit var gerð á mörgum svæðum í borginni, meðal annars nálægt helstu ánni sem rennur í gegnum hana. Leitin hélt áfram fram á kvöld og nótt en ekki var búið að hafa uppi á konunni þá.