Líklega óþolinmóð að komast til Bandaríkjanna

Mynd sem lögreglan í Plattsburgh dreifði af Lindu Björk Magnúsdóttur.
Mynd sem lögreglan í Plattsburgh dreifði af Lindu Björk Magnúsdóttur.

„Ég heyrði síðast í henni fyrir tveimur dögum síðan," segir Magnús Þór Sigmundsson tónlistarmaður. Hann er faðir konunnar sem bandaríska alríkislögreglan leitar nú að í New York ríki, eins og greint var frá í morgun.

Dóttir Magnúsar, Linda Björk Magnúsdóttir er 42 ára gömul og hefur verið búsett í Kanada síðustu mánuði. ,,Hún er með kærasta sem býr í Bandaríkjunum. Ég býst við því að þetta sé bara óþolinmæði sem veldur," segir Magnús, spurður um mögulegar ástæður þess að Linda Björk hafi reynt að komast yfir landamærin til Bandaríkjanna.

Hann segir að hún hafi búið í Bandaríkjunum í nokkur ár en svo snúið aftur til Íslands og búið hér heima í eitt ár, en svo farið út til þess að vinna í Kanada fyrir tveimur eða þremur mánuðum. Magnús segir að hann viti ekki meira um málið núna.

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, tjáði blaðamanni mbl.is að verið væri að spyrjast fyrir um þetta mál í sendiráði Íslands í Washington, en þar sem fimm tíma munur væri á Íslandi og sendiráðinu væri ekki von á svörum fyrr en eftir hádegið.

Tekið skal fram að Linda Björk var ekki grunuð um nein alvarleg afbrot og er ekki talin hættuleg af lögreglunni í New York ríki, þótt tekið væri fram í frétt dagblaðs í Plattsburgh að hún hefði gerst sek um einhvers konar lögbrot við landamærin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert