Mæla fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum á Alþingi

Þinghópur Hreyfingarinnar ásamt Þráni Bertelssyni, óháðum þingmanni, og Sigmundi Erni Rúnarssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, hefur lagt fram frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur á Alþingi. Mælt verður fyrir þvi í dag.

Í fréttatilkynningu frá hreyfingunni segir að samkvæmt frumvarpinu geti 10% kosningarbærra manna krafist þess með undirskrift sinni að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram um tiltekið málefni.  Þá gerir frumvarpið ráð fyrir því að stofnuð verði Lýðræðisstofa á vegum umboðsmanns Alþingis sem fari með framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu.  Einnig geti Alþingi ákveðið með þingsályktun að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram um tiltekið málefni eða lagafrumvarp.  Auk þess geti að lágmarki þriðjungur  þingheims krafist þess með þingsályktun að slík þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram.

Í tilkynningunni segir einnig að Hreyfingin telji frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur sem vinnuhópur forsætisráðherra skilaði af sér algerlega óásættanlegt.

„Þjóðaratkvæðagreiðslur eru mikilvægari lýðræðinu en svo að þeim megi eingöngu beita fyrir atbeina þess pólitíska meirihluta Alþingis sem situr hverju sinni eða forseta Íslands, líkt og verið hefur.  Sú leið hefur því verið farin að endurbæta frumvarp vinnuhópsins þannig að það endurspegli kröfu almennings um aukið lýðræði.  Kröfuna um að almenningur á Íslandi geti haft meira að segja um sín brýnustu hagsmunamál og mikilvægustu mál lands og þjóðar og geti gert það fyrir eigið frumkvæði og fyrir eigin atbeina.

Um árabil hefur verið uppi hávær krafa um aukna aðkomu almennings að mikilvægum ákvörðunum sem varða alla þjóðina, framtíð hennar og lífsafkomu um jafnvel áratugi. Slíkar ákvarðanir hafa hingað til verið algerlega í flokkspólitískum farvegi á Alþingi og taka jafnvel mið af sjónarmiðum fámennra en fjársterkra sérhagsmunahópa.  Þróun í átt til veikara þingræðis gagnvart framkvæmdarvaldinu undanfarna tvo áratugi hefur einnig gert það að verkum að valdaframsal frá almenningi til þingsins á fjögurra ára fresti hefur að mati margra verið gróflega misnotað.  Því er nauðsynlegt að til komi úrræði er veitt geti bæði löggjafarvaldinu og framkæmdarvaldinu meira aðhald en verið hefur," segir ennfremur í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert